Óðal er ættarsetrið og þessi rún táknar varanlegt öryggi, heimilið, föðurlandið og fjölskylduna. Hún hentar vel þeim sem vilja galdra fram hagstæð íbúðarkaup og þeim sem eru að stofna heimili. Sagt er að ættarmót heppnist sérlega vel fyrir tilstilli Óðals.
Í rúnalögn boðar Óðal veraldlegt öryggi. Ef spyrjandinn er húsnæðislaus munu raunir hans brátt á enda og framundan er tímabil farsæls fjölskyldulífs. Sá sem hefur hrakist að heiman mun komast heim. Ef spyrjandinn vill komast til metorða skal hann leita ráða frænda sinna og forfeðra. Mun honum vel þá farnast.