Ég hef lítið notað Facebook-síðuna sem ég setti upp fyrir norn.is á sínum tíma og síðustu tvö árin hefur hún að mestu leyti verið lokuð. Enda lítill tilgangur með því að vera með virka síðu sem aldrei er uppfærð.
En nú er ég búin að opna hana aftur og ætla að prófa að vera sæmilega virk þar a.m.k. út ágúst.
Ég pósta ýmsu á Facebooksíðunni sem birtist ekki hér, t.d. áhugaverðum bloggfærslum frá öðrum og þá helst þeim sem halda úti sínum eigin vefsíðum. Auðvitað pósta ég líka þar öllu nýju efni sem ég birti hér og á Kvennablaðinu og kannski einhverju eldra efni í bland. Endilega „lækið“ síðuna ef þið viljið sjá hana á fréttaveitunni. Eða ef þið viljið tjá ykkur því ég nenni ekki að vera með opin tjásukerfi á mörgum stöðum. Og svo má auðvitað læka Facebook-síðuna í þeim eina tilgangi að gleðja mig.
Ég held að Bloggáttin sé munaðarlaus. Ég fæ misvísandi skilaboð, ýmist þau að netfangið mitt sé skráð þar eða að gáttin kannist ekkert við mig. Sendi póst til að fá botn í þetta en hef ekki fengið neitt svar. Ekki sé ég neinar upplýsingar um það hver á þennan vef eða hvernig hægt er að ná sambandi við þann sama.
Annars eru fréttir dagsins þær að norn.is hefur bæst liðsauki. Hulla feitabolla ætlar að afsanna þá kenningu sem Tara Margrét, líkamsvirðingarfrömuður, heldur fram; að eingöngu 3-5% manns geti lést varanlega. Nú eða þá að sanna að hún tilheyri þeim fámenna hópi. Nú verður hún að standa við stóru orðin og hætta að borða eins og Svangi-Mangi Langa-Mangason fyrst hún er búin að lýsa þessu markmiði yfir opinberlega. Hún er með Facebook tjásukerfi opið svo þar má senda henni hvatningarorð.