Útilega – dagur 1

Ég hef ekki víðtæka reynslu af útilegum. Fór í fyrstu útileguna án fylgdar fullorðinna árið 1983 og lét mér það að kenningu verða.

Finn ennþá lyktina af blautri ull, svita og sæði innilokuðu í litlu, blautu tjaldi sem hélt hvorki vatni né vindi. Vakna skjlafandi eftir nánast engan svefn, skelþunn. Nestispokinn blautur. Ólystug köld kóteletta, raspið dottið af hluta hennar. Hvernig datt mér í huga að taka með mér kaldar kótilettur??? Eina samlokan sem var eftir hafði blotnað, kaffið á hitabrúsanum búið. Taka saman tjaldið í rigningu, holdvot. Bíða svo eftir bílstjóranum sem seinkaði um rúman klukkutíma frá því sem talað hafði verið um.

Aldrei aftur.

Gisti reyndar eina nótt í tjaldi með Einari fyrir nokkrum árum og það var alveg ok enda gott veður en ég hef ekki látið mig dreyma um fjallaferðir. Hef sagt honum þessi 6 sumur okkar saman að ég sé tilbúin til að láta á það reyna að fara með honum í útilegu en hafi ekki mikla trú á því að það eigi við mig. Hann hefur aldrei þrýst á mig eða sýnt neinn vott af óánægju yfir því að ég komi ekki með og ég hef ekki verið nógu spennt fyrir því ti að taka af skarið. Ég gerði það í þetta sinn, ekki af því að ég hafi verið spennt fyrir því heldur af því að maður á að prófa allt einu sinni og kannski var ekki alveg að marka þessa hörmung sumarið ´83.

Úr varð þriggja nátta ferð, reyndar ein í húsi, hjá vinafólki á Höfn, en hinar tvær í tjaldi. Og niðurstaðan er sú að það er alveg hægt að hafa gaman af þessu. Að vísu á Einar almennilegar græjur og við fengum þriggja daga logn, sem hlýtur að vera einstakt, og ég áskil mér rétt til þess að binda þá skoðun mína að útilegur séu ekki hræðilegar við þær aðstæður en þetta var semsagt aldeilis ágætt.

Hér tjölduðum við fyrsta kvöldið á huggulegum stað í nágrenni skriðjökuls
og nokkurra fallegra fossa.

Hér er verið að kveikja á prísmusnum til að elda kúskús og tómatsósu.
Tjald Mouhameds sést þarna á bak við.

 

Ótrúlegt veður um kvöldmatarleytið á Íslandi

Mouhamed á kvöldgöngu

 

 

 

 

Fórum í gönguferð um kvöldið. Ekki mikið upp í mót en sumsstaðar frekar grýtt. Alveg bara hæfilegt fyrir mig.

Þrátt fyrir að svefnpokinn ætti að þola 13 stiga frost var mér kalt um nóttina og svaf lítið. Hefði sennilega ákveðið að fara ekki fleiri slíkar ferðir ef hefði ekki verið glimrandi gott veður næsta dag.

Deila færslunni

Share to Facebook