Fönix

Hvers er vert að kunna og skilja
hvað þig langar, hvert þig ber?
Ef þú þekktir eigin vilja
einfalt reyndist lífið þér.

Þegar þú sérð fuglinn fljúga
fjöllum ofar, mundu það
að alltaf mun hann aftur snúa
á sinn gamla hreiðurstað.

Fornra þjóða eiga fræði
fugl sem æðra frelsi kýs
og þótt í eldinn beint hann æði
úr öskunni hann aftur rís.

Þótt hann brenni bálið heita
birta sólar dregur hann,
eins og þá sem logans leita,
lífið sjálft þeim fugli ann.

Þér í hjarta þrálátt tístir
þessi fugl sitt frelsisstef
og veröldin að vonum þrýstir
vinarkossi á þitt nef.

Gímaldin samdi síðar lag við þetta kvæði og gaf út.

Næturljóð

Mild,
hljóð,
ljúf,
læðist nóttin inn um gluggann.

Hlý,
mjúk,
þung,
læðist nóttin inn í hugann.

Og hún sveipar mig værð og hún fyllir mig friði
og augunum lokar svo enginn mig sér.
Og hún gefur mér tóm til að syrgja og sættast
við frumstæðar kenndir sem krauma í mér.
Því myrkrið er mjúkt og í mýkt þess er varin
sú mynd sem í birtingu brotnar sem gler.

 

Gímaldin samdi síðar annað lag við þennan texta og gaf út árið 2012.

Sálumessa

Af mold ertu kominn
til moldar skal hverfa þitt hold
og hvílast í ró
fjarri eilífð og upprisudómi
en af hverju grátum við dauðann
og greftrun í fold
ef sálin án líkama svífur
í tilgangsins tómi?

Og hver er þá tilgangur andans
ef hold verður mold
og tilgangur holdsins
ef tengslin við sálina rofna?

Eitt annarlegt faðmlag í myrki
á óræðum stað
svo holdlega andlegt
mun aftaka vafann um það;

af mold er mitt hjarta
og býður þér þreyttum að sofna.

Gímaldin samdi lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.