Sálumessa

Af mold ertu kominn
til moldar skal hverfa þitt hold
og hvílast í ró
fjarri eilífð og upprisudómi
en af hverju grátum við dauðann
og greftrun í fold
ef sálin án líkama svífur
í tilgangsins tómi?

Og hver er þá tilgangur andans
ef hold verður mold
og tilgangur holdsins
ef tengslin við sálina rofna?

Eitt annarlegt faðmlag í myrki
á óræðum stað
svo holdlega andlegt
mun aftaka vafann um það;

af mold er mitt hjarta
og býður þér þreyttum að sofna.

Gímaldin samdi lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Sálmurinn

Úr söngleiknum „Leikfimi“ eftir Björn Sigurjónsson og Evu Hauksdóttur.
Sértrúarsöfnuðurinn flytur þennan söng við innvígslu nýrra félaga.
Nauðsynlegt er að nokkrir meðlima kórsins séu hjáróma.

#Tak mig til þín,
tákn þíns heilaga anda mér sýn.
Þinn kjötlegur sonur í kærleika
kemur til mín.#

Leið oss að ljósi þíns dreyra,
lambhrúta sanna.
Frá jörðu þú jarm vort munt heyra,
já, hósíanna.

Kaleik þíns eilífa anda
erum vér þyrst í.
Gef oss af gnótt þinna handa,
gloría Kristí.

Sál vora af saurugum dansi
Satans fulltrúa,
hreins þú með himneskum fansi,
heyr, hallelúja.

Leys oss frá drykkju og dræsum,
djöflum oss fría.
Lát oss ei enda í ræsum,
ave María.

Líkna þú aumum ódámi,
eilífa gef von.
Frelsa oss frá kynvillu og klámi,
kyrie eleison.

Gjör oss af andanum ölvuð
en ei brennivíni.
Drykkja og dóp veri bölvuð,
deus ex machini.

Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.