Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.