Dagbók frá 7. bekk 13

Ég er ekki hrifin af Didda Dóra. Eiginlega förum við mikið í taugarnar á hvort öðru og hann segir “mér langar” og svoleiðis vitleysur. En það er samt svo skrýtið að það er eins og hausinn á mér snúist ósjálfrátt í áttina að honum og ég get ekki látið hann í friði og við erum alltaf að tuskast. Ég tuskast líka við Eyvind í mínum bekk en það er ekki eins gaman. Hann á það til að meiða mig. Ég er með fullt af marblettum eftir Didda Dóra en það er samt öðruvísi af því að gerist meira óvart. Mér er sama þótt ég meiðist en ég vil ekki láta meiða mig. Eyvi er svo mikill plebbi að hann fattar ekki muninn. Mig langar að vera hrifin af einhverjum af því að þá er maður alltaf svo titrandi inni í sér en ég er ekki hrifin af neinum núna. Ég er að reyna að æsa mig upp í að verða hrifin af Villa en það gengur ekki neitt. Hann er líka frekar harðhentur og svo kallar hann mig alltaf Jónka Tröll. Það angrar mig samt ekkert.

 

Dagbók frá 7. bekk 12

Það er ekkert gaman núna. Helgi spurði hvort ég vildi koma í bíó með sér. Ég væri alveg til í það ef það væri bara einhver annar. Mér er strítt á því að hann sé hrifinn af mér og ég var ekkert almennileg við hann í kvöld. Rósa er leiðinleg við mig. Hún er alltaf að tala um hvað ég sé feit og hvað brjóstin á mér hossist mikið. Svo er ég með bólu á hökunni og hún fer ekki hvernig sem ég kreisti hana. Ég vona að hún fari um helgina.

 

Dagbók frá 7. bekk 11

Ég skil ekki hvað þetta er með hann Rúnar. Þessi prúði drengur lætur alveg eins og fífl. Það geri ég reyndar líka en ég er hins vegar ekkert óvön því. Gunna á Ási heldur að það sé af því að hann hefur alltaf verið ofverndaður og nú er hann frjáls. Ég er líka ofvernduð en ég gat samt hegðað mér kjánalega í gamla skólanum en ekki hann af því að foreldrar hans voru alltaf nálægir.(1) Foreldrar eru mjög óhollur félagsskapur til lengdar. Ég er mjög glöð yfir því að hafa mömmu ekki alltaf ofan í hálsmálinu á mér lengur.

(1. Foreldrar Rúnars unnu við skólann.)

 

Dagbók frá 7. bekk 10

Ég þoli ekki mömmu. Hún kom í skólann með fullt af nammi harðfisk og allskonar og það var ágætt. En Ásgeir í 9. bekk hélt að hún væri 18 ára og fannst hún mjög myndarleg. Eins og Ásgeir er skemmtilegur strákur. En hann tekur ekkert eftir mér og finnst ég örugglega algjört smábarn. Við töluðum helling um Guð og kirkjuna í gærkvöldi og þegar ég fór heyrði ég hann segja við Kidda að ég væri mjög spes krakki. Semsé krakki en ekki stelpa. En hann er samt mjög fínn. Mér er hinsvegar illa við Kidda. Hann er heimskur monthani en þeir Ásgeir eru svo miklir vinir að maður getur ekki talað mikið við Ásgeir nema þurfa að tala við Kidda líka. Ég er samt ekki hrifin af Ásgeiri en mér finnst samt ekkert gaman að hann skuli vera svona heillaður af mömmu minni.

 

Dagbók frá 7. bekk 9

Helgi er hrifinn af mér. Í dag fórum við út í líffræðitímanum og hann bar mig yfir lækinn. Mér finnst gaman að einhver skuli vera hrifinn af mér en mér finnst leiðinlegt að það skuli vera hann. Hann er áreiðanlega góður strákur en hann líkist helst gömlum bónda og er ekki myndarlegur. Ég er samt almennileg við hann enda er ég sjálf ljót og ljótt fólk á ekkert skilið að aðrir séu ekki almennilegir við það. En ég vildi samt að einhver annar væri hrifinn af mér en ég veit ekki hver ég vil að sé það. Allavega ekki Diddi Dóri.

 

Dagbók frá 7. bekk 8

Ég er búin að læra fullt af nýjum orðum sem ég veit ekkert hvað þýða. Eins og t.d. snípur og fróa sér. Mér finnst snípur vera ógeðslegt orð. Það hljómar eins og lítið hárlaust nagdýr. En það er ekkert svoleiðis heldur eitthvað dónalegt. Ég er ekki viss en ég held að “fróaðu þér” sé bein þýðing á “fokk you”. Það er líka rökrétt af því að fróa er áreiðanlega skylt fræ. Samt held ég að það sé ekki beint að gera það heldur svipað og að rúnka sér en rúnka sér er ekki að ríða, heldur eitthvað eins og það sem skeður þegar maður rennir sér niður handrið. Það er allavega talað um að rúnka sér á handriðinu þannig að það hlýtur að vera það.

Ég er frekar klár í því að nota orð sem ég skil ekki. Það er kannski af því að merkingin skiptir ekki svo miklu máli ef maður er eitthvað að dónast. Ég veit allavega að lessa er kvenkyns hommi. Stundum dettur mér í hug að ég sé svoleiðis af því mér finnst svo fallegt að sjá sumar stelpurnar berar. En ég er samt örugglega ekki svoleiðis af því mér finnst bara gaman að tuskast við stráka en ekki stelpur. Brjóst eru mjög falleg en ég vil ekki hafa þau utan í mér. En það er gaman að slást við stráka sem eru ekki mjög sterkir en samt sterkari en ég.

 

Dagbók frá 7. bekk 7

Í dag fórum við í sund og strákagerpin reyndu að draga sundbolina af okkur. Brjóstin á Siggu fóru alveg upp úr og hún var alveg brjáluð. Villi í mínum bekk kaffærði mig og ég varð mjög hrædd. Ég er ekki hrædd við að deyja en ég er samt hrædd við að drukkna. Og svo var ég öskureið af því að það sást alveg að ég var hrædd og mér fannst það ekki gaman. Ég henti fötunum strákanna í sundlaugina og svo hlupum við allar upp í skóla. Ég flúði inn á herbergi til Sillu og Siggu en strákarnir sóttu mig og báru mig fram á gang og rennbleyttu mig. Þetta var samt gaman. Allur gangurinn er rennandi blautur núna en við reyndum samt að þurrka það mesta upp. Ég verð eiginlega að læra að synda. Annars verð ég annað hvort drepin eða klædd úr næst þegar ég fer í sund.