Dagbók frá 7. bekk 34

Mamma gaf mér bók sem heitir “andleg kreppa”. Það er svona sálfræðibók. Mér finnst gaman að lesa hana en ég skil ekki alveg af hverju mamma var að gefa mér hana. Ég held að hún vilji að ég haldi að hún sé í andlegri kreppu en ég held það ekki neitt. Hún er bara að kafna úr frekju og vill að allir hafi áhyggjur af sér. En hún er samt góð þessa dagana og ég ætti að vera þakklátari. Hún dekraði við mig á allan hátt þegar ég kom heim og Gunni líka.

 

Dagbók frá 7. bekk 25

Allt er ömurlegt. Freyja er farin heim af því hún fer til tannlæknis á morgun og Rósa er öll í strákunum og aldrei inni á harbergi og Silla og Sigga eru alltaf saman svo ég er alein, líka um helgar. Diddi talar ekki einu sinni við mig, eins og við vorum góðir vinir á mánudagskvöldið. Núna lætur hann sem hann sjái mig ekki. Mér er alveg sama um hann, leiðist bara að vera ein. Rósa er ekkert sæt en samt eru allir strákarnir utan í henni. Bara af því að hún er fyndin. Ég er ekki fyndin. Ég er bara háfleyg og engum finnst það neitt spennandi. Ég get ekki einu sinni verið fyndin þótt ég reyni það. En ég held samt að ég sé aðeins að grennast. Ég er allavega hætt að éta.

Dagbók frá 7. bekk 35

Ég er laus við verkina í bili en það ískrar ennþá í mér þegar ég geng. Sum þessara krakkafífla eru svo vitlaus að reyna að stríða mér á göngulaginu. Það er svo heimskulegt að maður getur ekki einu sinni orðið reiður. Þau vita ekkert hvað liðagigt getur gert manni. Ég er stundum svo hrædd um að hún fari í hendurnar að ég get ekki sofið þótt ég hafi enga verki.

Maður á ekki að þurfa að kvíða því að verða gamall þegar maður er bara í 7. bekk. Svo losna ég ekki einu sinni við sundið út á þetta. Læknirinn sagði að ég ætti helst að synda á hverjum degi. Hann sagði líka að ég ætti að sofa í almennilegum náttfötum og nota ullarnærföt. Ég meina það! Eins og sé ekki hægt að halda á sér hita án þess, við búum ekki í moldarkofum. Mamma hefur ábyggilega fengið hann til að segja þetta.

Dagbók frá 7. bekk 32

Sigmundur [skólastjórinn] talaði við mig áðan og skipaði mér að mæta í matsalinn og borða. Ég hef ekkert borðað nema morgunmatinn og svo ávöxt á kvöldin síðan á mánudaginn enda er ég að léttast. Það er ekkert erfitt að sleppa því að borða ef maður mætir ekki í mat. En hann hótaði að senda mig heim og sagði að ef ég þyrfti að léttast skildi ég mæta í leikfimi. Ég ætla að mæta í mat en samt að passa mig. Ég hugsa að ég fari í leikfimi næst, svona til að róa liðið, ég vil allavega ekkert vesen.