Dagbók frá 7. bekk 37

Það kom dálítið skrýtið fyrir mig í kvöld. Við vorum í svona bjánalegum leik og ég átti að vera ein inni í herbergi með einhverjum strák. Það voru 5 strákar í röð. Það gerðist ekkert nema við Eyvi köstuðum strokleðri í hvort annað.

Svo var ég ein með Jónasi inni á herbergi 4 á gömlu vist en mér datt alls ekki í hug að neitt myndi gerast. Jónas er sko ekki feiminn. “Viltu koma í sleik?” sagði hann bara eins og ekkert væri sjálfsagðara og roðnaði ekki einu sinni. Ég varð svo hissa að ég fann hvernig andlitið á mér varð mjög bjánalegt og hendurnar á mér urðu sjóðandi heitar og ég varð máttlaus í hnjánum. Það var eins og höfuðið á mér væri fullt af einhverju suði og ég heyrði sjálfa mig ekki segja neitt en ég fann varirnar hreyfast svo ég held að ég hafi kannski sagt það upphátt; “ég bara kann það ekki” Allavega brosti hann með öllu andlitinu eins og hefði sagt eitthvað sem var annað hvort mjög heimskulegt eða ofsa krúttlegt. (Guð hvað ég skammast mín. Ég vona bara að honum hafi frekar þótt það krúttlegt.) Hann er reyndar með mjög fallegt bros.

Og svo vorum við allt í einu að kyssast. Hann var sko örugglega ekki að gera þetta í fyrsta sinn sem merkir náttúrulega að hann hefur líka verið að kyssa einhverja aðra í bekknum. Örugglega Kötu eða Sirrý. Það var ekkert rómantískt. Ljósið kveikt og allt í drasli í herberginu en það var samt svo gott að ég gæti gargað. Sleikur er ógeðslegt orð og lýsir þessu alls ekki rétt. Þetta var ekkert líkt því þegar Bragi ská-á-móti reyndi að setja tunguna upp í mig þegar ég var 10 ára, heldur allt öðru vísi. Ekkert slefkennt eða með tunguna ofan í kok eða neitt svoleiðis, bara svona mjúkt og þétt og einhvernveginn æsandi. Og hann notar þétt og hlý handtök en káfar ekki stjórnlaust yfir mann allan eins og Diddi Dóri og Eyvi. Við kysstumst mjög lengi og ég gerði bara alveg eins og hann og ég held að ég kunni það bara alveg núna. Mig langaði að halda endalaust áfram og þegar við hættum fannst mér eins og gólfið gengi allt í bylgjum undir mér og hjartað var alveg niðri í maga.

Ég fór niður og lá á maganum í rúminu og hugsaði um þetta í allt kvöld. Ég var alveg að springa og varð bara að segja einhverjum frá þessu. Ég sagði Freyju það og hún varð á svipinn eins og ég hefði gert eitthvað verulega ógeðslegt. “Hvað sérðu eiginlega við hann” sagði hún. Ég reyndi að útskýra að ég sæi ekkert sérstakt við hann og þetta hefði bara einhvernveginn gerst en hún fattar það ekki. “Ertu þá ekki hrifin af honum?” sagði hún og ég held að ég sé kannski dálítið hrifin af honum. Mér hefur reyndar aldrei dottið það í hug áður en hann hefur heldur aldrei kysst mig áður og það er hægt að elska karlmann af ómerkilegri ástæðu. Ég held samt að hann sé ekkert hrifinn af mér. Hann hefur örugglega bara verið að æfa sig og fundist allt í lagi að nota mig sem tilraunadýr. Mér er alveg sama, ég er þó allavega búin að prófa þetta. Ég hélt einhvernveginn alltaf að það yrði Diddi Dóri og að það myndi ekki gerast fyrr en í 8. bekk eða kannski 9. En hann kyssir örugglega ekki eins vel og Jónas svo ég er bara heppin. Jónas er eiginlega mjög myndarlegur strákur svona þegar maður fer að spekúlera í því og þótt hann líti út eins og einn af litlu strákunum er lyktin af honum næstum fullorðin. Jú, ég held bara að ég sé pínulítið hrifin af honum. Ég er ennþá skrýtin.