Síðasta skóladaginn í 2. bekk kom Darri heim með handavinnu og teikningar vetrarins. Veðrið var gott, langþráður dagur upprunninn og hann fleygði teiknimöppunni sinni á eldhússborðið og hljóp svo út að leika sér. Ég vissi að það yrði vonlaust að fá hann til að skoða myndirnar með mér þann daginn en var sjálf spennt og vildi ekki geyma það. Ég skoðaði myndirnar gaumgæfilega, myndir úr daglegu lífi skólabarns, fallegt handbragð og litasamsetning eins og við var að búast af syni myndlistarmanns. Ein þeirra bar þó af, mynd af honum sjálfum með rauðu húfuna sína, með sleða í eftirdragi og hundinn okkar hann Sám á hælunum. Afar falleg mynd, máluð með skærum vaxlitum á svart karton. Þetta var tvímælalaust allra besta mynd sem hann hafði málað. Ég valdi nokkrar myndir til að hengja upp á stóru korktöfluna í eldhúsinu og eina í svefnherbergið mitt en myndina af Darra og Káti hengdi ég upp í holinu.
“Hvað er þessi mynd að gera hér?” spurði Darri fýlulega þegar hann kom heim og sá myndina af sér og Káti uppi á vegg.
“Þetta er mjög falleg mynd. Ég vil hafa hana þar sem hún nýtur sín” sagði ég.
“Þetta er asnaleg mynd” sagði Darri, “þarf hún endilega að vera þarna?”
“Þetta er alls ekki asnaleg mynd, hún er mjög góð, þetta er bara alveg eins og Kátur.” sagði ég.
“Þetta er ekkert Kátur. Þetta er Skotta” hnussaði Darri og strunsaði út og skellti á eftir sér.
Andartak hélt ég að hann væri skyndilega orðinn feiminn við að láta myndirnar sínar sjást en það var ekki málið. Hann sýndi hverjum sem það vildi myndirnar í eldhúsinu og ræddi myndefnið fram og aftur þar til við vorum orðin leið á þeim og skiptum þeim út, en af einhverjum dularfullum ástæðum sýndi hann allra bestu myndinni af sér og Káti algert afskiptaleysi. Honum þótti venjulega vænt um hrós en nú sýndi hann engin merki um ánægju eða stolt þegar ég sýndi gestum og gangandi þessa fallegu mynd sem fékk að hanga á veggnum allt sumarið enda þótt myndunum á korktöflunni væri skipt út reglulega. Auðvitað var hann að prófa mig. Ég hafði ekki áður hengt myndirnar hans upp á svona áberandi stað og auðvitað vildi hann fá staðfestingu á því að mér þætti myndin raunverulega þess virði að hafa hana þar varanlega, það væri ekki bara til að gera honum til geðs.
Myndin á veggnum varð brátt eðlilegur hluti af umhverfinu. Darri sætti sig við veru hennar á stofuveggnum og hætti að agnúast út í hana og ég gleymdi að sýna hana öllum sem komu í heimsókn. Ekki hvarflaði þó að mér að taka myndina niður og hún hékk þarna áfram þar til faðir drengins kom í heimsókn á afmælinu hans um miðjan febrúar.
Hilmar, pabbi strákanna minna, bjó í öðrum landshluta og hafði ekki heimsótt okkur fyrr. Darri teymdi hann um húsið og sýndi honum herbergið sitt, reiðhjólið og myndirnar á korktöflunni. Rúnar, sem sjálfur er myndlistarmaður dáðist að myndunum og skyndilega mundi ég eftir mynd sem ég hafði varla litið á í margar vikur.
“Þetta er nú ekkert” sagði ég og sýndi Hilmari myndina. “Hinar myndirnar eru fínar en sjáðu þessa mynd, HÚN er FLOTT!”
Hilmar virti myndina fyrir sér með stolti og kinkaði kolli. Hann tók Darra í fangið og klappaði honum á kinnina.
“Þetta er rosaflott mynd hjá þér, bara sú allra besta sem ég hef séð eftir þig. Málaðirðu hana alveg sjálfur?”
“Nei, ég gerði hana ekki” sagði Darri “Jón málaði þessa mynd þegar við vorum í 2. bekk. Mamma er svo hrifin af henni að hún vill endilega hafa hana þarna.”
Ég fann munninn á mér opnast í fremur bjánalegri grettu. Ég tók myndina niður af veggnum. Ég gat ekki betur séð en að þetta væru einmitt Darri og Kátur og að handbragðið væri handbragð sonar míns. Kennarinn sem gekk frá myndunum í möppur hefur líklega verið sömu skoðunar. Aftan á myndinni stóð þó skrifað skýrum stöfum með rauðum vaxlit “Jón 2. bekk”. Ég tók myndina þegjandi niður af veggnum og leitaði að annarri til að setja í staðinn. Ég fann enga sem mér fannst almennilega passa.