Ég er laus við verkina í bili en það ískrar ennþá í mér þegar ég geng. Sum þessara krakkafífla eru svo vitlaus að reyna að stríða mér á göngulaginu. Það er svo heimskulegt að maður getur ekki einu sinni orðið reiður. Þau vita ekkert hvað liðagigt getur gert manni. Ég er stundum svo hrædd um að hún fari í hendurnar að ég get ekki sofið þótt ég hafi enga verki.
Maður á ekki að þurfa að kvíða því að verða gamall þegar maður er bara í 7. bekk. Svo losna ég ekki einu sinni við sundið út á þetta. Læknirinn sagði að ég ætti helst að synda á hverjum degi. Hann sagði líka að ég ætti að sofa í almennilegum náttfötum og nota ullarnærföt. Ég meina það! Eins og sé ekki hægt að halda á sér hita án þess, við búum ekki í moldarkofum. Mamma hefur ábyggilega fengið hann til að segja þetta.