Dagbók frá 7. bekk 33

Ég hata spítalann. Allavega barnadeildina. (1) Ég meina það, að setja mann á barnadeild! Ég gat ekkert skrifað á meðan ég var þar því ég get ekki skrifað þegar ég finn til. En mamma gaf mér puntuhandklæði og garn og ég saumaði helling. Það verður æði.

Mamma segir að ef ég hefði fæðst á 19. öld hefðu vonbiðlar komið í langri fylkingu til að biðja mín, bara út á handavinnunna. (Hún segir reyndar líka að þeir yrðu fljótir að flýja aftur þegar þeir heyrðu munnsöfnuðinn á mér.) Ég sé nú reyndar ekki fyrir mér að strákarnir í mínum bekk myndu vilja giftast mér út á puntuhandklæði en Óskar sagði samt að það væri flott. Mamma hrósar mér næstum aldrei en hún er samt alltaf hrifin af því sem ég sauma, líka þótt ég klári það aldrei. En ég ætla samt að klára þetta þótt sé rosaleg vinna að gera þetta svona því ég fylli allt út. Kellingarnar á spítalanum sögðu að það væri frumlegt og voru alltaf að glápa á handbragðið hjá mér. Verst að vera góð í einhverju sem mér finnst ekkert merkilegt en ekki einhverju alvöru.(1)

2 Ég var lögð inn á spítala þennan vetur til rannsóknar, þegar ég var farin að ganga skökk vegna stöðugra verkja í hnám og mjöðmum. Ég varð aldrei aftur svona slæm þótt ég fyndi fyrir gigt af og til. Frá 28 ára aldri hef ég aldrei þurft á lyfjum að halda vegna þessa. Sennilega hefur glænepjulegur klæðaburður í öllum veðrum, auk vafasamra megrunaraðgerða (sem gátu t.d. falist í því að borða ekkert nema appelsínur í heila viku) átt sinn þátt í því að ég varð svona slæm en ég er ekki frá því að kvíðinn sem greip mig þegar ég fór að heyra ískur í liðunum hafi líka magnað verkina upp. Nokkrum árum fyrr hafði ég heimsótt langafa minn á elliheimilið og séð gamla konu sem hafði þá legið föst í sömu stellingunni árum saman. Eftir það orkaði orðið “gigt” ennþá verr á mig en “krabbamein” eða “offita” sem þó voru í mínum huga fádæma skelfileg.

2 Puntuhandklæðið liggur ennþá inni í skáp. Ekkert eftir nema að ganga frá jöðrunum. Afar fallegt stykki og frumlegt með hárfínum kontorsting og þéttum, hnífjöfnum flatsaum. Ekki spyrja mig hvers vegna ég lauk aldrei við dúka og önnur stykki sem ég saumaði sem krakki, kannski af sömu ástæðu og skrifin mín hafa aldrei komist á prent.