2 Ég var lögð inn á spítala þennan vetur til rannsóknar, þegar ég var farin að ganga skökk vegna stöðugra verkja í hnám og mjöðmum. Ég varð aldrei aftur svona slæm þótt ég fyndi fyrir gigt af og til. Frá 28 ára aldri hef ég aldrei þurft á lyfjum að halda vegna þessa. Sennilega hefur glænepjulegur klæðaburður í öllum veðrum, auk vafasamra megrunaraðgerða (sem gátu t.d. falist í því að borða ekkert nema appelsínur í heila viku) átt sinn þátt í því að ég varð svona slæm en ég er ekki frá því að kvíðinn sem greip mig þegar ég fór að heyra ískur í liðunum hafi líka magnað verkina upp. Nokkrum árum fyrr hafði ég heimsótt langafa minn á elliheimilið og séð gamla konu sem hafði þá legið föst í sömu stellingunni árum saman. Eftir það orkaði orðið “gigt” ennþá verr á mig en “krabbamein” eða “offita” sem þó voru í mínum huga fádæma skelfileg.
2 Puntuhandklæðið liggur ennþá inni í skáp. Ekkert eftir nema að ganga frá jöðrunum. Afar fallegt stykki og frumlegt með hárfínum kontorsting og þéttum, hnífjöfnum flatsaum. Ekki spyrja mig hvers vegna ég lauk aldrei við dúka og önnur stykki sem ég saumaði sem krakki, kannski af sömu ástæðu og skrifin mín hafa aldrei komist á prent.