Norn.is

Eva Hauksdóttir

Norn.is

Dagbók frá 7. bekk 31

Það gerðist svolítið leyndó í kvöld. Ég var að tuskast við Didda Dóra og við lentum einhvern veginn inni í sturtunni fyrir framan stelpnavistina. Það var mjög dimmt og hann kyssti mig á hálsinn og allt í einu vorum við ekki lengur að tuskast heldur næstum því að kela, held ég. Hann er mjög klaufalegur og hreyfingarnar svona fálmkennt káf eins og hjá gömlum kalli. Karlmaður á ekki að káfa utan í mann heldur nota þétt handtök. En það var samt eitthvað gott við þetta. Ég er samt ekki hrifin af honum og ég ætla ekki að segja neinum. Ekki einu sinni Freyju.

Dagbók frá 7. bekk 30

Ásgeir segist hafa runkað sér á hverjum degi þegar hann var í 7. bekk. Aldrei myndi ég þora að gera það í skólanum. En strákar eru öðruvísi. Það hlýtur samt að vera lygi í Ásgeiri að þeir geri svoleiðis á hverjum degi. Ef það væri satt væri gumsið út um allan skóla. Ég er mikið að velta því fyrir mér hvað þeir gera við það. Varla sofa þeir í bleytunni? En það stendur ekkert um það í kynlífsbókum og ég þori ekki að spyrja Ásgeir.

 

Dagbók frá 7. bekk 28

Nú eru allir í prestatíma. Ég myndi alveg vilja mæta líka en nenni því ekki í dag. Það var hræðilegt heima í gær. Mamma fékk kast og fleygði disk í borðstofugluggann. Það kom sprunga í innri rúðuna en það er ekkert svo slæmt. Það er verst hvað við verðum hrædd þegar hún er í svona skapi. Ég held að Ómar hafi líka orðið hræddur en hann lét það ekki sjást heldur gargaði á hana á móti. Það er svo agalegt þegar hún lætur svona. Krakkarnir öskrandi af hræðslu og ég veit ekkert hvað ég á að gera nema reyna að fá þau til að halda kjafti svo hún verði ekki ennþá brjálaðri. Ég held samt að hún sjái eftir þessu af því að hún gaf mér hlébarðagallann í gærkvöldi. (1)
1. Móðir mín baðst aldrei afsökunar á neinu en hún gaf oft friðþægingargjafir eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu. Hlébarðagallinn var náttfatasamfestingur með hlébarðamynstri. Ég var haldin náttfatadellu á þessum tíma.

 

Dagbók frá 7. bekk 27

Ég hata sögu. Mér fannst alveg allt í lagi með sögu á meðan hún var um eitthvað en núna er bara endalaus upptalning á dauðum ráðherrum og hverjir voru í ríkissjórn sautjánhundruð og súrkál. Það er ekkert um þetta í vísunum (1) og ég er ekki hissa á því. Það nennir enginn að búa til vísur um svona leiðindi. Eða kristnisagan, hún er nú bara æla. Ég hef aldrei kynnst leiðinlegri manni en honum Tuðmundi. Helgislepjan lekur svoleiðis af honum að ég fæ grænar bólur á rassgatið bara af því að horfa á hann. Held að séra Lárus sé skárri, svei mér þá.

Megrunin gengur ágætlega. Ég hef lést um 2 kíló. Ég ætla að komast niður í 36 áður en ég hætti. (2) Ég er að byrja á 6. kaflanum af Sora Veraldar (3) Þetta gengur bara vel, enda hef ég ekki mætt í útitíma í tvær vikur.

1. Hér á ég væntanlega við Íslandssöguvísur Arnar Snorrasonar. Ég lærði Íslansdssöguna í grunnskóla að verulegu leyti í gegnum þær.

2. Sem betur fer komst ég aldrei neitt nálægt þessu lífshættulega markmiði mínu.

3. “Sori Veraldar” var ákaflega vond skáldsaga sem ég var að dunda mér við að skrifa á meðan ég átti að vera úti að leika mér. Þetta var átakanleg saga ungrar stúlku sem bjó við barsmíðar, niðurlægingar og aðra mannvonsku hjá drykkjusjúkum föður og illgjarnri móður. Inn í alla þessa eymd fléttuðust ástarsorgir og tryggðasvik og á hápunkti sögunnar bjargaði Sara (söguhetjan) ungbarni úr brennandi húsi en síðar kom í ljós að geðsjúk móðursystir hafði kveikt í húsinu í hefndarskyni við föðurinn sem hafði haldið fram hjá móðurinni illgjörnu með frænkunni geðsjúku en svikið loforð sitt um að skilja við móðurina. Ég man vel að sagan átti að enda á dramatísku sjálfsvígi hetjunnar en áður en ég náði að skrifa svo langt, áttaði mig á því að ég fengi sennilega ekki Nóbelinn fyrir þetta stórvirki.

 

Dagbók frá 7. bekk 26

Það er allt í steik heima. Þau rifust fram á nætur alla helgina og hún er búin að vera með leggja sig veikina (1) á hverjum einasta degi segir Didda. Svo þegar hún loksins kemur fram gerir hún ekkert nema naglalakka sig, hanga í símanum og garga á okkur. Allt í drullu og ógeði og krakkinn bleyjulaus, mígandi og skítandi í gólfteppin og fer ekki að sofa fyrr en löngu eftir miðnætti og svo er hann líka taugaveiklaður þótt hún viðurkenni það ekki. Þegar ég kom heim á föstudaginn voru allir pottar fullir af mygluðum matarleifum. Didda er svo ábyrgðarlaus. Segir bara “ég er ekki mamman hérna” og lætur sem hún sjái ekki neitt. Og Ómar flýr bara í vinnuna og kemur ekki heim fyrr en 9 á kvöldin eða seinna og hangir þá bara yfir orgelinu. Ég skil ekki af hverju enginn gerir neitt. Fólk hlýtur að sjá að þetta getur ekki gengið svona. Ég er dauðfegin að þurfa ekki að vera heima nema um helgar en ég er bara hrædd um að hún hugsi ekkert um krakkana. Ég gleymdi að þvo og á eiginlega ekkert hreint til að vera í. Ég er að skrópa í útitíma núna. Ég skrópaði líka í sundi (maður getur ekki verið á túr í hverri viku) og Friðrik sagði ekkert við því. Mér er alveg sama þótt ég fái núll, ég ætla ekkert að mæta næst heldur.

1. Á þessum tíma var þunglyndi ekki eins mikið í umræðunni og í dag. Það þótti aumingjaskapur að þjást af þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum og oftar en ekki var fólk orðið mjög veikt áður en það leitaði sér hjálpar. Ég skildi að það var eitthvað sjúklegt við ástand móður minnar en tengdi orðið “þunglyndi” fyrst og fremst við svartsýni og depurð sem átti ekki sérstaklega við í þessu tilfelli.

 

Dagbók frá 7. bekk 24

Ég hata Helga. Í kvöld rennblotnaði ég í vatnsslag og fór niður til að skipta um föt. Þar sem ég stóð á brókinni heyrði ég einhvern hneggja undir rúminu hennar Freyju. Það var Helgi sem lá þar og góndi beint á mig. Ég hef aldrei verið jafn fljót að klæða mig. Hann komst næstum út en ég gat samt hárreitt hann aðeins. Ég er mjög reið og ég hata hann. Hann er ljótur og heimskur og hefur augu eins og kamelljón. Ég er líka svekkt út í Rósu. Hún er alltaf að gera grín að brjóstunum á mér. Mér finnst einhvernveginn miklu meira svekkjandi þegar hún gerir það heldur en þegar strákarnir eru að stríða mér. Ég er mjög leið núna en mig langar samt ekki heim.