Norn.is

Eva Hauksdóttir

Norn.is

Dagbók frá 7. bekk 27

Ég hata sögu. Mér fannst alveg allt í lagi með sögu á meðan hún var um eitthvað en núna er bara endalaus upptalning á dauðum ráðherrum og hverjir voru í ríkissjórn sautjánhundruð og súrkál. Það er ekkert um þetta í vísunum (1) og ég er ekki hissa á því. Það nennir enginn að búa til vísur um svona leiðindi. Eða kristnisagan, hún er nú bara æla. Ég hef aldrei kynnst leiðinlegri manni en honum Tuðmundi. Helgislepjan lekur svoleiðis af honum að ég fæ grænar bólur á rassgatið bara af því að horfa á hann. Held að séra Lárus sé skárri, svei mér þá.

Megrunin gengur ágætlega. Ég hef lést um 2 kíló. Ég ætla að komast niður í 36 áður en ég hætti. (2) Ég er að byrja á 6. kaflanum af Sora Veraldar (3) Þetta gengur bara vel, enda hef ég ekki mætt í útitíma í tvær vikur.

1. Hér á ég væntanlega við Íslandssöguvísur Arnar Snorrasonar. Ég lærði Íslansdssöguna í grunnskóla að verulegu leyti í gegnum þær.

2. Sem betur fer komst ég aldrei neitt nálægt þessu lífshættulega markmiði mínu.

3. “Sori Veraldar” var ákaflega vond skáldsaga sem ég var að dunda mér við að skrifa á meðan ég átti að vera úti að leika mér. Þetta var átakanleg saga ungrar stúlku sem bjó við barsmíðar, niðurlægingar og aðra mannvonsku hjá drykkjusjúkum föður og illgjarnri móður. Inn í alla þessa eymd fléttuðust ástarsorgir og tryggðasvik og á hápunkti sögunnar bjargaði Sara (söguhetjan) ungbarni úr brennandi húsi en síðar kom í ljós að geðsjúk móðursystir hafði kveikt í húsinu í hefndarskyni við föðurinn sem hafði haldið fram hjá móðurinni illgjörnu með frænkunni geðsjúku en svikið loforð sitt um að skilja við móðurina. Ég man vel að sagan átti að enda á dramatísku sjálfsvígi hetjunnar en áður en ég náði að skrifa svo langt, áttaði mig á því að ég fengi sennilega ekki Nóbelinn fyrir þetta stórvirki.