Nú eru allir í prestatíma. Ég myndi alveg vilja mæta líka en nenni því ekki í dag. Það var hræðilegt heima í gær. Mamma fékk kast og fleygði disk í borðstofugluggann. Það kom sprunga í innri rúðuna en það er ekkert svo slæmt. Það er verst hvað við verðum hrædd þegar hún er í svona skapi. Ég held að Ómar hafi líka orðið hræddur en hann lét það ekki sjást heldur gargaði á hana á móti. Það er svo agalegt þegar hún lætur svona. Krakkarnir öskrandi af hræðslu og ég veit ekkert hvað ég á að gera nema reyna að fá þau til að halda kjafti svo hún verði ekki ennþá brjálaðri. Ég held samt að hún sjái eftir þessu af því að hún gaf mér hlébarðagallann í gærkvöldi. (1)
1. Móðir mín baðst aldrei afsökunar á neinu en hún gaf oft friðþægingargjafir eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu. Hlébarðagallinn var náttfatasamfestingur með hlébarðamynstri. Ég var haldin náttfatadellu á þessum tíma.