Dagbók frá 7. bekk 29

Mér gekk illa í megruninni um helgina. Þegar er alltaf verið að éta í kringum mann gleymir maður sér bara, en nú ætla ég að taka mig á. Ég er samt ekkert hrifin af neinum, langar bara að vera mjó.

Ég hugsa að Sori Veraldar komi allavega ekki út fyrir jól. Það sem komið er er frábært þótt ég segi sjálf frá en nú dettur mér ekkert meira í hug til að skrifa um. Svo held ég líka að ég þurfi að hafa eitthvað af klámi og kommúnisma með svo hún verði almennilega krassandi en ég veit ekkert mikið um svoleiðis. En ég er allavega kommúnisti þótt ég viti ekki mikið um Max (1), mér er alveg sama hvað Gunni segir um einkaframtak (2) og það, ég vil bara að allir fái jafnt. Það á allavega enginn 13 ára krakki að þurfa að sofa með foreldrum sínum í herbergi. (3)

Laugardagurinn var samt góður. Þau fóru í bíltúr með krakkana og komu ekki fyrr en um kvöldmat og á meðan las ég allar kynfræðslubækur á heimilinu og nú veit ég allt um þetta. (4) Sumt fólk er mjög skrýtið. En það er ekki satt hjá Ásgeiri að allir frói sér. Það eru bara 80% stráka og 10-20% stelpna. Það þýðir að það er í mesta lagi ein í viðbót í mínum bekk. Allavega ekki Þórunn og ekki Silla. Mér er alveg sama, ég ætla samt ekki að hætta.

1. Þetta var stafsett “Max” í textanum og mér finnst rétt að láta það halda sér þótt ég hafi annars leiðrétt flestar mál og stafsetningarvillur.

2. Stjúpfaðir minn rak fyrirtæki en ég hef ekki hugmynd um hvar hann stóð í pólitík. Hann kom vel fyrir sig orði og hafði gaman af því að mótmæla fólki sem hafði heitar stjórnmálaskoðanir, hvort sem það var til hægri eða vinstri. Ég taldi mig kommúnista en hafði sáralitla þekkingu á þeirri hugmyndafræði. Sennilega hefur trúarhiti minn gagnvart kommúnismanum aðallega helgast af því að flestir í móðurætt minni voru flokksbundnir sjálfstæðismenn og ég hafði gaman af að þræta en auk þess voru helstu hetjur bernsku minnar Hrói höttur og Jesús kristur, sem ég leit á sem byltingarmann fremur en trúarlega fígúru.

3. Silla vinkona mín ólst upp við fátækt. Á heimili hennar bjuggu 10 manns við þrengsli sem voru mér framandi. Silla og tvö systkina hennar deildu herbergi með foreldrum sínum þar til Silla varð 15 ára en hin 13 og 14 og krakkarnir áttu nánast enga hluti sem töldust séreign. Ég sárvorkenndi Sillu fyrir að búa við fátækt en dauðöfundaði hana af því að móðir hennar skipti aldrei skapi og lá aldrei í rúminu á daginn og af því að aldrei var rifist á heimilinu. Þegar gekk illa heima hjá mér rembdist ég við að sannfæra sjálfa mig um að ég hefði það allavega ekki eins skítt og Silla.

4. Ég hef ekki hugmynd um hvaðan mér kom sú hugmynd að kynfræðslubækur, (sem voru sýnilegar uppi í bókahillu, öllum aðgengilegar) væru forboðið lesefni. Ég man ennþá hvað mér fannst ég rosalega óþekk þegar ég læsti bæði húsinu og herberginu mínu, dró gluggatjöldin fyrir (herbergið mitt var á 2. hæð) og harðlas í einum spreng áhugaverðustu kaflana úr “Allt sem þú hefur viljað vita um kynlífið” (bæði heftin) og “Æska og kynlíf”.