Norn.is

Eva Hauksdóttir

Norn.is

Dagbók frá 7. bekk 26

Það er allt í steik heima. Þau rifust fram á nætur alla helgina og hún er búin að vera með leggja sig veikina (1) á hverjum einasta degi segir Didda. Svo þegar hún loksins kemur fram gerir hún ekkert nema naglalakka sig, hanga í símanum og garga á okkur. Allt í drullu og ógeði og krakkinn bleyjulaus, mígandi og skítandi í gólfteppin og fer ekki að sofa fyrr en löngu eftir miðnætti og svo er hann líka taugaveiklaður þótt hún viðurkenni það ekki. Þegar ég kom heim á föstudaginn voru allir pottar fullir af mygluðum matarleifum. Didda er svo ábyrgðarlaus. Segir bara “ég er ekki mamman hérna” og lætur sem hún sjái ekki neitt. Og Ómar flýr bara í vinnuna og kemur ekki heim fyrr en 9 á kvöldin eða seinna og hangir þá bara yfir orgelinu. Ég skil ekki af hverju enginn gerir neitt. Fólk hlýtur að sjá að þetta getur ekki gengið svona. Ég er dauðfegin að þurfa ekki að vera heima nema um helgar en ég er bara hrædd um að hún hugsi ekkert um krakkana. Ég gleymdi að þvo og á eiginlega ekkert hreint til að vera í. Ég er að skrópa í útitíma núna. Ég skrópaði líka í sundi (maður getur ekki verið á túr í hverri viku) og Friðrik sagði ekkert við því. Mér er alveg sama þótt ég fái núll, ég ætla ekkert að mæta næst heldur.

1. Á þessum tíma var þunglyndi ekki eins mikið í umræðunni og í dag. Það þótti aumingjaskapur að þjást af þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum og oftar en ekki var fólk orðið mjög veikt áður en það leitaði sér hjálpar. Ég skildi að það var eitthvað sjúklegt við ástand móður minnar en tengdi orðið “þunglyndi” fyrst og fremst við svartsýni og depurð sem átti ekki sérstaklega við í þessu tilfelli.