Ég hata Helga. Í kvöld rennblotnaði ég í vatnsslag og fór niður til að skipta um föt. Þar sem ég stóð á brókinni heyrði ég einhvern hneggja undir rúminu hennar Freyju. Það var Helgi sem lá þar og góndi beint á mig. Ég hef aldrei verið jafn fljót að klæða mig. Hann komst næstum út en ég gat samt hárreitt hann aðeins. Ég er mjög reið og ég hata hann. Hann er ljótur og heimskur og hefur augu eins og kamelljón. Ég er líka svekkt út í Rósu. Hún er alltaf að gera grín að brjóstunum á mér. Mér finnst einhvernveginn miklu meira svekkjandi þegar hún gerir það heldur en þegar strákarnir eru að stríða mér. Ég er mjög leið núna en mig langar samt ekki heim.