Dagbók frá 7. bekk 23

Ég hata mömmu. Hún er snuðrandi í öllu sem henni kemur ekki einu sinni rassgat við. Guðný kom í heimsókn um helgina og fór að hrósa mér fyrir eitthvað ljóð og þá fattaði ég að hún hefur fundið ljóð eftir mig, ofan í minni eigin skúffu og sýnt kerlingum sem koma í kaffi til hennar. Eldgamalt ljóð en mér er alveg sama, hún átti ekkert með þetta. Ég held að hún hafi samt skammast sín smá því þetta er allavega í eina skiptið í lífi mínu sem hún hefur ekki gargað á mig fyrir að skella hurðum. En hún sagði samt ekki fyrirgefðu. Ég hef líka aldrei heyrt hana nota það orð þótt hún ætlist til að aðrir geri það. Ég held hún sé ekki búin að finna ástarljóðin sem ég samdi þegar ég var hrifin af Magga í fyrra. Ég fór með þau inn á bað og brenndi þau.

Það var samt eitt gott en það er sko ekki ………… (1) að þakka. Gunni (2) talaði við mig og sagði mér frá vitleysu sem ég geri stundum en vissi ekki um. Ég hef einmitt verið óánægð með sumar vísurnar mínar þótt ég noti stuðla og allt. En það er bara af því að stuðlarnir þurfa að vera uppi en ég hef þá stundum niðri. (3) Djöfull sem maður getur verið fattlaus, þetta er svo augljóst þegar maður veit af því. Allavega þarf ég aldrei framar að búa til vonda vísu en ég er samt reið við mömmu og ætla bara að vera það áfram.

1. Hér var orð sem ekki er prenthæft og segir meira um mitt sálarástand þessa stundina en innræti móður minnar.

2. Gunni var stjúpfaðir minn. Hagmæltur mjög.

3. Væntanlega á ég hér við að stuðlar þurfi að standa í áherslu eða hákveðu.