Dagbók frá 7. bekk 13

Ég er ekki hrifin af Didda Dóra. Eiginlega förum við mikið í taugarnar á hvort öðru og hann segir “mér langar” og svoleiðis vitleysur. En það er samt svo skrýtið að það er eins og hausinn á mér snúist ósjálfrátt í áttina að honum og ég get ekki látið hann í friði og við erum alltaf að tuskast. Ég tuskast líka við Eyvind í mínum bekk en það er ekki eins gaman. Hann á það til að meiða mig. Ég er með fullt af marblettum eftir Didda Dóra en það er samt öðruvísi af því að gerist meira óvart. Mér er sama þótt ég meiðist en ég vil ekki láta meiða mig. Eyvi er svo mikill plebbi að hann fattar ekki muninn. Mig langar að vera hrifin af einhverjum af því að þá er maður alltaf svo titrandi inni í sér en ég er ekki hrifin af neinum núna. Ég er að reyna að æsa mig upp í að verða hrifin af Villa en það gengur ekki neitt. Hann er líka frekar harðhentur og svo kallar hann mig alltaf Jónka Tröll. Það angrar mig samt ekkert.