Dagbók frá 7. bekk 14

Það kom eitthvað mjög skrýtið fyrir mig í dag. Það byrjaði eiginlega í síðustu viku með því að við Diddi Dóri fórum í vatnsslag og hvorugt okkar þoldi að tapa svo við erum búin að vera í þriggja daga vatnsslag. Og líka að tuskast en stundum verður óvart alvöru slagur úr því. En það byrjar samt alveg í góðu.

En í gærkvöldi vorum við að tuskast í góðu og svo varð ég reið af því að hann sagði asnalegan brandara um rassinn á mér. Ég lét samt sem ekkert væri. Aldrei að gefa höggstað á sér. En svo í enskutíma í dag, þá henti hann pappírsskutlu í mig og þá varð ég brjáluð og henti enskubókinni í hausinn á honum. Ég hitti reyndar ekki en hann kastaði bókinni til baka í mig og hitti og þá varð ég ennþá reiðari og svo fórum við að slást inni í tíma. Villa reyndi að vera brjáluð en hún var ekki mjög sannfærandi. Hún hótaði að henda okkur út en stóð ekki við það þótt við byrjuðum aftur. Svo eftir tíma héldum við áfram og hann elti mig niður á herbergi og við fórum að slást þar. En þá vorum við ekki lengur reið svo það var eiginlega ekki slagur heldur tusk.

Síðan lá hann ofan á mér og þá gerðist eitthvað skrýtið inni í mér. Svona titringur undir húðinni eins og þegar maður hlustar á æðislegt lag mjög hátt stillt og ég fékk hjartslátt. Ég sá alveg að þetta sama kom líka fyrir hann og hann var mjög asnalegur á svipinn og örugglega ég líka. Við hættum alveg að slást. Síðan fór hann bara og ég var svona skrýtin í smástund. Það sem pirrar mig núna er að ég veit ekki hvað svona heitir og mér finnst ég svo mikill plebbi. Hann veit það örugglega og það fer líka í taugarnar á mér.