Stjörnurnar hennar Rebekku

Nú hylja skýin himins stjörnur sýnum
og helgrá fjöllin sveipa þokuslæður.
Á þorpið herjar hríðarbylur skæður
og hrekur lítinn fugl úr garði þínum.

Í mannsins heimi finnst þó fegurð síður,
þar fyrir völd og gróða berjast bræður
og fjandinn sjálfur flestum ríkjum ræður
er fátækt, stríð og spilling húsum ríður.

Þó áttu sjálfa veröldina að vini
því verðugt er að líta jörðu nær
þá fegurð sem við fætur þína grær,
í garðinum, frá götuljóssins skini
glitra allt um kring og undir skónum
þúsund stjörnur, þér til gleði, í snjónum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Sátt

Vinur, þegar vorið kveður,
vaka hjartans dularmál,
eins og tónn sem andann gleður
áttu stað í minni sál.

Þótt særð ég hafi í sorgum mínum
sakað þig um lygi og svik.
Finn ég enn í faðmi þínum
fullsælunnar augnablik.

Kvæði handa dópistum

Eitt vorkvöld sat ég hálf
í Valaskjálf
að vitum mínum anga engu líka
lagði, svo ég aftur að mér dró
ilminn frjóa, ríka.

Og blóðið brann,
um æðar rann,
ég fann
um mig streyma unaðssæluhrollinn
og kaupmennirnir kalla ilminn þann
Rauða ruglukollinn.

Þeir segja að allt sé vænt
sem vel er grænt
og af því hef ég gengið fram á gnýpu,
Nepal reykt úr niðursuðudós
Norðurljós úr pípu.

En fáar
finna má
sem jafnast á
við jurtir þær af Egilsstaðagötu
sem Ruglukollur þessi er runnin frá
og reykja má úr fötu.

Nú finnst mér allt það dautt
sem ekki er rautt
því aldrei finn ég sama sæluhrollinn
og kvöldið sem mér kaupmaðurinn bauð
Rauða ruglukollinn.

En víst
ég við því býst
ég vilji síst
tárum bæta í niðurtúrapollinn.
Svo lífs míns fjandafæla um það snýst
að forðast Ruglukollinn.