Í orðastað frú Gamban

Út í heiminn hófst þín ferð frá húsadyrum.
Fróða Bagga fylgdir sporum
faldir þig í klettaskorum
þegar orkar urðu á þínum vegi.

Og eins þótt lítill fugl á laufgum teigi
ljóð sín kvaki beint frá huga þínum
og allt hið besta af þér jafnan segi
vanda hvern ég veit hjá drengnum mínum.

Og þótt þín sál í söngvum trjánna hljómi
sakna ég þín á hverjum degi, Sómi.

sett í skúffu sumarið 2003

 

Sonardilla

Kalda vermir nótt í hvílu minni
sem kúri pysja smá í holu sinni,
breytir hverju böli í sælu að finna
hjúfra við mig hlýja vangann þinn.
Alla ævi mun í myrkri skína
sólargeisli sængina undir mína
meðan ég á litla lundann minn.

Sett í skúffu í nóvember 1992

Vöggukvæði

Eftir dagsins argaþras
ýmiskonar bauk og bras,
rifnar buxur, brotið glas
blíðlega strjúka má þér.

Hægt og hljótt,
hægt og hljótt,
þér ég vagga þýtt og rótt.
Það er komin kolsvört nótt
þú mátt kúra hjá mér.

Aldrei líta af þér má
undursnögg er höndin smá,
voða þá ég vísan á
víki ég eitt skref frá þér.

Ofurhugans eldleg þrá
einatt húsið herjar á,
því er kappann sælt að sjá
sofna í hausinn á sér.

Meiri er mér þó gleði af því
að morgni líta enn á ný
leik þinn, bjástur hopp og hí,
horfa á þig vaxa frá mér.

Augnaljósin ljúfu þín
lækna sálarmeinin mín
inn í hugans auðnir skín
ástin sem hef ég á þér.

sett í skúffu í ágúst 1990