Afmælisvísur handa Hauki

Haukur minn á afmæli í dag. 16 ára. Hann er að vinna úti á landi og ég ákvað að gefa honum GSM síma, kannski aðallega sjálfrar mín vegna. Þarf ennþá á því að halda að vera pínulítið ómissandi. Hann ætlar til Ástralíu. Ég mun sakna hans, hrikalega.


Er mér vaxinn yfir höfuð, lífs míns óður.
Minninganna mæti sjóður,
myndarpiltur, drengur góður.

Aldrei hefur lagt sig lágt, í lífi sínu.
Aldrei vikið út af línu
eða brugðist trausti mínu.

#Ekki þarf að undrast þótt ég um það kveði.
Mín er lífsins mesta gleði
að mega við þig blanda geði.#

Hann var góður, glaðvær, frjór og greindur piltur.
Í veiðimannaleikjum villtur,
var þó hlýðinn, blíður, stilltur.

Kvæðalög hann söng og skrýtnar sögur sagði,
andartak hann aldrei þagði
og aldrei frá sér bogann lagði.

Að morgni, fyrr en hugði hann að maga og munni,
út á hlað hann hlaupa kunni
að hlæja dátt við náttúrunni.

Og á kvöldin eins og pytti upp úr dreginn,
borinn inn á bað og þveginn
blund þá stundum féll í peyinn.

Einn við leiki undi hann sér alla daga.
Oft þó reyndi inn að draga
ímyndaða leikfélaga.

Ekki þurfti óþekktina um að kvarta.
Sálar minnar sólin bjarta
sigraði allra hug og hjarta.

Bað um leyfi til að lemja litla bróður.
Gerðist sterkur, stór og fróður,
stundum jafnvel allt of góður.

Vildi í sinni visku kenna, vernda, ráða,
ala upp hinn yngri snáða,
einatt tala fyrir báða.

Yndislega kveðlinga hann ungur orti.
Orðaforða aldrei skorti
en oft var spekin út úr korti.

Hans er orðin höndin litla, hlýja, mjúka
minni talsvert stærri og strjúka
stelpukvið nú vill hans lúka.

Heiðarleik hann hefur sér og hógværð tamið,
ástríður og ofsa hamið,
engan nema Darra lamið.

Engan hefur hann ennþá slegið undir belti.
Eins þótt við hann ólar elti
argur ruddi og á hann gelti.

Þér ég kenndi rammt að stuðla og rétt að ríma.
Þakklát fyrir þennan tíma
þér að lokum gef ég síma

Hvort sem þú ert úti í bæ eða inni í landi,
ef þar steðjar að þér vandi,
endilega vertu í bandi.

Nú ertu orðinn strákur stór og brátt þú stendur
einn, og vinnur eigin lendur,
Ástralíu bíða strendur.

Engu hefurðu enn að tapa en allt að vinna.
Svo þú megir frelsið finna
fljúgðu sæll til nýrra kynna.

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *