Hvílíkur misskilningur, hvílíkur reginmisskilningur hjá honum Jóhanni að dagar haustsins séu sjúkir. Vissi hann það ekki maðurinn að haustið er súludræsa lífsins en ekki dauðans og að litklæðin eru tákn þess sem þrátt fyrir allt lifir veturinn af? Því náttúran veit að sú sem vill láta serða sig þarf fyrr eða síðar að fækka fötum og ekki síður vænlegt til árangurs að þær spjarir séu þokkalega eggjandi. Þessvegna skrýðist hún litum, ástríðulitum skrautflíkum sem auðvelt er að fella, dillar sér eftir hljómfalli vindanna og flettir sig klæðum, uns hún stendur allsnakin frammi fyrir pervasjónum almættisins; reiðubúin, blygðunarlaus, heilbrigð.
Greinasafn eftir:
Kvæði handa Hugaskáldum
Hefðin bætir svart með sandi
sígilt stuðlar fjall við foss.
Einsemd bundin auðnarlandi
yndi tengir ástarkoss.
Nú skal gömlum klisjum kasta,
klæða ljóðið nýjum lit.
Gefa skít í forna og fasta
formsins úrelt stuðlastrit.
Hugabarn í bragarhætti
binda vill ei hjartans söng.
Fátt er hér um fína drætti
og frumleikinn í tækniþröng.
Og þó svo tímans straumar stefni
stuðlum fyrir dits og dár,
má sjá hér sömu yrkisefni
og undanfarin þúsund ár.
Ástin þungt hér virðist vega,
vonir, sorg og þögul þrá.
Flest við höfum furðanlega
fáu nýju að segja frá.
Í ljóðum hér þótt lítið sjái
listrænt töts ég trúi því,
að Hugaskáldsins hjartað slái
hefðarinnar takti í.
sett í skúffu í september 2002
Sólarsýn
Hátt uppi á grösugri
Gnitaheiði
fuglum er búin
vin á fjöllum.
Þar fella gæsir
fjaðrir á sumri,
hreindýrahjarðir
hagann þræða.
Þar falla fossar,
fuglar verpa,
þar vaxa grös
á víðum lendum.
Þar lifir Helgi
í hjartarlíki
sá er vargar
vógu í svefni.
Ormur vill ráða
rógmálmi skatna
Gimli skal reisa
á Gnitaheiði
Fáfni skal fórnað
friðlandi dýra
og um aldurdaga
auðlind sjúga.
Heilbrynju skrýdd
á Hindarfjalli
sefur Brynhildur
dóttir Buðla.
Einn hefur Sigurður
sverði brugðið,
vafureld ríður
að vekja brúði .
Frækn vill fé ráða
og friðland verja
ægishjálm orms
að engu virða.
Vel mun völsung
valkyrja eggja
Sigurdrífa
sólufegri.
Þá kemur hinn ríki
Regindómur
Níðhöggs hjálp
frá Niðavöllum
Guðrúnar bræður
Gjúkasynir
mág sinn sofinn
sverði leggja
Rænum, rænum
Regins arfi,
liggjum gull
á Gnitaheiði.
Vel skulum lýði
vopnum búa.
Sól tér sortna
sígur fold í fen.
Afmælisvísur handa Hauki
Haukur minn á afmæli í dag. 16 ára. Hann er að vinna úti á landi og ég ákvað að gefa honum GSM síma, kannski aðallega sjálfrar mín vegna. Þarf ennþá á því að halda að vera pínulítið ómissandi. Hann ætlar til Ástralíu. Ég mun sakna hans, hrikalega.
Stokkseyrarfjara
Tileinkað þáverandi sveitarstjórn Stokkseyrar og Eyrarbakka Halda áfram að lesa