Tengsl

Hún átti það til að standa óþægilega nálægt honum í strætóskýlinu jafnvel þótt þau væru þar bara tvö. Hann hafði á tilfinningunni að hún biði hans á hverjum morgni og þegar hann nálgaðist horfði hún beint í augu hans og brosti. Hún gekk aldrei neitt lengra en það en hann kveið því samt að hitta hana. Lengi vel lét hann sem hann sæi hana ekki.

Dag nokkurn kom þó að því að hann brosti hann á móti. Það var ekki stórt og geislandi fagnaðarbros, ekki beinlínis hlýlegt heldur. Hann gaf sig ekki á tal við hana, heldur kinkaði bara kolli og brosti sem snöggvast út í annað.

En þótt það væri bara örstutt bros náði það samt til augnanna og það gladdi hana ákaflega mikið.

Ljóð handa vegfaranda

Suma daga sit ég við stofugluggann og bíð eftir að þú gangir fram hjá.

Þú heldur að ég sé að horfa út um gluggann.
Kannski á hundinn nágrannans eða krakka með skólatöskur eða unglingana að reykja bak við sjoppuna.
Stundum veifar þú til mín og bregður fyrir litlu brosi. Kannski heldurðu að ég sé að horfa á þig og finnur dálítið til þín.Ég er reyndar að bíða eftir þér, já, en ég er ekki að beinlínis að horfa á þig. Ég er búin að því. Ég er meira að bíða eftir að þú horfir á mig. Nú þú. Það er réttlæti. Ég vil að þú horfir á mig. Ekki af því að ég eigi neina sérstaka drauma um þig heldur af því að þú átt leið hjá á heppilegum tíma og flestir aðrir eru á bíl. Horfa þessvegna aldrei á mig. Ungir menn eiga að horfa á fallegar stúlkur. Þannig hefur það alltaf verið segja þeir.

En þú horfir ekki heldur þótt þú farir þér hægt. Horfir aldrei beinlínis á mig. Lítur bara til mín í svip og gengur svo framhjá. Sperrtur eins og hani.

Einu sinni kallaði ég til þín af því ég sá að þú misstir veskið þitt. Þá stoppaðir þú og horfðir aðeins á mig, pínulítið. Ekki samt lengi. Þú sagðir takk. Svo bara fórstu.

Ég hélt að ég gæti kannski náð athygli þinni með því að sýna þér betur hvað ég er falleg. En nú, þegar ég sit nakin á svölunum er engu líkara en að þú forðist beinlínis að líta upp. Og ert hættur að veifa.

Mér er satt að segja að verða svolítið kalt.

Óður til haustsins

Hvílíkur misskilningur, hvílíkur reginmisskilningur hjá honum Jóhanni að dagar haustsins séu sjúkir. Vissi hann það ekki maðurinn að haustið er súludræsa lífsins en ekki dauðans og að litklæðin eru tákn þess sem þrátt fyrir allt lifir veturinn af? Því náttúran veit að sú sem vill láta serða sig þarf fyrr eða síðar að fækka fötum og ekki síður vænlegt til árangurs að þær spjarir séu þokkalega eggjandi. Þessvegna skrýðist hún litum, ástríðulitum skrautflíkum sem auðvelt er að fella, dillar sér eftir hljómfalli vindanna og flettir sig klæðum, uns hún stendur allsnakin frammi fyrir pervasjónum almættisins; reiðubúin, blygðunarlaus, heilbrigð.

Ljóð handa birkihríslum

Síðustu nótt ársins lá hrímþokan yfir Fellunum og kyssti litla birkihríslu ísnálum. „Öll ertu fögur vina“ hugsaði hríslan og speglaði sig í Fljótinu þegar morgunbirtan sindraði á hvítan kjólinn. Síðasta dag ársins varð litlu birkihríslunni kalt og hún fagnaði sólinni sem loksins skreið undan skýi sínu og bræddi héluna af greinum hennar. Á nýársnótt stóð hún nakin frammi fyrir Fljótinu. Henni fannst hún ekki lengur falleg en ekki hrjáði hana kuldinn. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hlýindum svo gættu þín sól, litlar birkihríslur ættu ekki að bruma á vetrum.

Uppskeruhátíð

Uppskeruhátíð á Sólheimum. Allt troðfullt af hollustu. Grænkál og rófur og litlar sætar gulrætur og allt. Borðað og dansað og dansað og dansað. Hann dansar líka. Dansar við mig og hina krakkana og við Bertu gömlu og líka einn. Svona stór! Þriggja ára og næstum því fullorðinn.

Svo kemur hann til mín, hálfvolandi. Segist þreyttur, vill fara heim að sofa. Við leiðumst út í haustnóttina. „Var ekki gaman“ segi ég, „jú“ segir hann og meinar það. Hefur ekki áður vakað svo lengi og undrast stjörnurnar; himneskar kartöflur, kannski tunglið sé næpa? Ég spyr hvort hann muni hvers vegna við höldum uppskeruhátíð.

Hann stoppar, snýr sér að mér, syfjuð augun kringlótt himintungl í jarðarlit. Sveiflar báðum handleggjunum í stóran hring og bendir til himins: „Af því allt og allt kemur upp úr jörðinni!“