Kvæði handa Hugaskáldum

Hefðin bætir svart með sandi
sígilt stuðlar fjall við foss.
Einsemd bundin auðnarlandi
yndi tengir ástarkoss.

Nú skal gömlum klisjum kasta,
klæða ljóðið nýjum lit.
Gefa skít í forna og fasta
formsins úrelt stuðlastrit.

Hugabarn í bragarhætti
binda vill ei hjartans söng.
Fátt er hér um fína drætti
og frumleikinn í tækniþröng.

Og þó svo tímans straumar stefni
stuðlum fyrir dits og dár,
má sjá hér sömu yrkisefni
og undanfarin þúsund ár.

Ástin þungt hér virðist vega,
vonir, sorg og þögul þrá.
Flest við höfum furðanlega
fáu nýju að segja frá.

Í ljóðum hér þótt lítið sjái
listrænt töts ég trúi því,
að Hugaskáldsins hjartað slái
hefðarinnar takti í.

sett í skúffu í september 2002

Share to Facebook