Gullsnúðar

Einar er að baka lúsíuketti.  Þetta eru snúðar sem eru vafðir frá sitthvorum enda lengjunnar í sitthvora áttina eins og S. Mér sýnast þetta nú bara vera venjulegir snúðar fyrir utan lögunina en hann ætlar að sannfæra mig um að saffran sé eitthvað merkilegra en kanelsykur. Það er miklu dýrara en nokkurt annað kyrdd sem ég hef heyrt um sem ekki er vímuvaldandi en ég hef efast um að það sé peninganna virði. Finnst kanelsykur bara alveg ágætis bragðbætir í snúða. Birti niðurstöður fyrir svefninn.

Uppfært:

Ég hef reyndar heyrt um ríkukalla sem krydda kjöt með gulli en ekki um neinn sem kryddar sætabrauð með reykelsi og myrru. En það staðfestist hér með að kanill er betri en saffran.

 

Á lygnum sjó

„Er kominn á lygnan sjó, svona tilfinningalega“ sagði hann. Langar víst að hitta mig.

Gott og vel. Við getum svosem hist þegar betur stendur á. Eftir allan þennan tíma er ég sjálf á algerlega lygnum sjó, opin fyrir öllu en um leið skítsama um allt. Þ.e.a.s. karlmenn, ekki pólitík.

-Hahh, viltu ekki bara láta ganga á eftir þér prinsessan þín? segir Birtan í mér og glottir út í annað þegar ég segist ekki vera nein fjandans prinsessa.

Í augnablikinu er ég efins um hvort mér er verr við karlmenn eða feminista.

 

Hvenær særir maður mann?

-Ætlaðir þú ekki að vera í Osló klukkan eitt? spyr ég.
-Ég var þar klukkan eitt í nótt. Lagði mig í tvo tíma og hélt svo áfram
-Ertu bilaður maður? Hvað er þetta eiginlega langur akstur?
-1000 mílur, svarar Bjartur, og Noregur er ekkert nema fjallvegir og krókar, víðast hvar 50 km hámarkshraði.
-Þú hefðir ekki átt að aka þetta að nóttu til. Hversvegna lá þér svona á?
-Ég sef ekki undir stýri. Lagði mig tvisvar á leiðinni. Ég hefði kannski átt að taka lengri tíma í ferðina en ég vildi sjá þig sem fyrst. Halda áfram að lesa