Ég hitti Prófessorinn á kaffihúsi.
Hann spurði hvort mig langaði að ræða „tilfinningamálin“. Sennilega verið búinn að búa sig undir að þurfa að sinna sálgæslu. Kannski heldur hann að ég sé kona eða eitthvað svoleiðis.
En ég vildi ekkert ræða nein tilfinningamál. Langaði bara að hitta hann af því að hann er skemmtilegur.
Kannski voru það stærstu mistök ævi minnar að játast Bjarti án þess að kynnast Prófessornum almennilega fyrst. Og þau næst stærstu að frjósa þegar við prófuðum aftur og hann fékk bakþanka. Þ.e.a.s. ef tilfinningaviðbrögð eru flokkanleg sem mistök. Líklega er helvitis höfnunarkenndin stærsta og kannski bara eina ógæfa mín í lífinu. Ætli það sé ekki hennar vegna sem ég gæti ekki selt sveltandi hundi kjötbein.
Þegar fólk talar um að missa stjórn á tilfinningum sínum er venjulega átt við skyndilega útrás. Mér dettur i hug ofsafenginn grátur eða einhver sem eys út reiði sinni með hávaða og ógnandi látbragði. Að kólna upp, láta sem manni standi hjartanlega á sama og leika hlutverk freðýsunnar svo vel að maður nær að sannfæra sjálfan sig í margar vikur, það er ekki að missa stjórn. Eða hvað? Er fullkomin ró, svo fullkomin að maður ræður ekki við að sýna minnsta vott af blíðu eða eftirsjá, merki um sjálfsstjórn eða kannski frekar dulið dæmi um það að missa stjórn á skapi sínu?