Ligg í rúmi Málarans. Í náttfötum. Áður fyrr var ég vön að liggja á gólfinu, nakin.
Undarlegt að liggja í rúmi manns sem þekkir líkama minn betur en nokkur annar og hefur þó aldrei snert mig nakta nema með pensli eða málningarsvampi. Hann geymir myndirnar sem hann tók þegar hann hafði málað mig og ég velti því fyrir mér hvort hann horfi fremur á líkama minn eða myndirnar sem hann málaði á hann þegar hann flettir í gegnum albúmið. Vil ekki spyrja því mér kemur það ekki við.
„Auðvitað er það einhverskonar blæti“ sagði hann þegar ég kom til hans fyrst en hann snerti mig ekki, leit mig ekki lostafullu augnaráði, gerði yfirhöfuð ekkert sem gæti ögrað þolmörkum mínum á nokkurn hátt. Og nú þegar hann eyðir samskonar fjárhæðum í mig þótt hann sé ekkert að mála mig, sé ég enn ekkert sem bendir til væntinga um neitt sem ég er ekki tilbúin til að gefa.
Hann er búinn að bjóða mér að vera hjá sér, eins lengi og ég vil. Hann borgaði flugmiðann fyrir mig, lánaði mér bílinn sinn, hann keypti rauðvínsbelju þótt hann drekki vín sárasjaldan sjálfur, bara af því að hann veit að mér finnst það gott, hann snýst í kringum mig, þjónar mér á alla lund og gerir engar kröfur á móti.
Af hverju gerir hann allt þetta fyrir mig og reynir samt ekkert til að koma mér til? Og af hverju kemur það mér á óvart? Geng ég hreinlega út frá því að karlmenn ætlist til kynlífsgreiða í skiptum fyrir ást þótt þeir viti að það sé ekki á óskalistanum? Er ég að misnota mann sem augljóslega elskar mig eða væri ég frekar að gera lítið úr dómgreind hans með því að hafa vit fyrir honum og þiggja ekki hjálp þegar ég þarfnast hennar?
Ligg í rúmi Málarans og horfi á hann sofa. Það hvarflar að mér að kannski væri bara sjálfsögð kurteisi að sofa hjá honum, svona til að þakka fyrir mig. Einhverntíma hefur maður víst legið mann og annan af ómerkilegra tilefni. Ég veit að ég er ekkert eina konan í heiminum sem á það til að hugsa svona en við viðurkennum það ekki. Það er sársaukaminna að stimpla alla karla nauðgara en að horfast í augu við að menning sem gengur út frá því að karlar séu í eðli sinu nauðgarar, gerir um leið allar konur sem þiggja hjálp þeirra að hórum.