Prófessorinn gerði mér tilboð sem ég gat ekki hafnað. Íbúðin hans losnaði fyrsta desember og hann bauð mér að flytja inn og hafa afnot af bílnum sínum þar til hann kæmi til landsins um miðjan mánuðinn. Við myndum eyða jólunum saman og sjá til hvernig það kæmi út.
Ég hef nú búið í íbúðinni hans í tvær vikur. Ég hefði getað verið hjá Málaranum áfram. Ég er velkomin þar eins lengi og ég vil. En mig langar að athuga þetta með Prófessorinn. Ef út í það er farið hef ég engu að tapa. Ég er ekki ástfangin af honum en mér líður vel nálægt honum og við höfum alltaf um eitthvað að tala. Mér líður eins og þetta gæti orðið eitthvað. Það er ekkert rökréttara en hvað annað en mér líður þannig.
Hann er að koma til landsins í dag. Ég sæki hann út á flugvöll. Ef mér líður ekki vel með honum fer ég bara til Málarans aftur. Eða systur minnar, eða pabba. Ég hef í alvöru engu að tapa.