Ekki eins gult og það ætti að vera

Mér skilst að spákonan sem segir að gula ljósið nái ekki niður í klofið á mér sé komin í einhverja vafasama erótík. Ég ætti eiginlega að leita hana uppi, ég hafði óendanlega gaman af henni og eiginlega synd að ég skyldi ekki kynnast henni persónulega. Væri samt ekki til að láta hana spúla mig með garðslöngu.

Hún er spes kerlingin og enda þótt ég gæti ómögulega tekið hennar ágætu en já að nokkru leyti vafasömu ráðum varðandi löngun mína til að lifa af skrifum, var það nú samt hún sem hjálpaði mér að leiðrétta ruglið í hausnum á mér þegar ég var hreinlega farin að trúa því að karlmennska væri fæðingargalli. Og það er dýrmætt því fordómar eru íþyngjandi til lengdar. Ég hafði áður leitað til sálfræðings sem reyndist bara alveg sammála mér um að karlmenn ættu meira skylt við apa en mannverur og hefði sennilega þurft mun meira á aðstoð að halda en ég sjálf. “Ég myndi nú ekki kalla þetta fordóma” sagði hún þegar ég dró upp bragðmiklar lýsingar á viðbjóði mínum á tegundinni “þú ert bara að lýsa staðreyndum.” Og þar með missti ég trúna á sambandinu milli sálfræðimenntunar og andlegs heilbrigðis og sneri mér til spákonunnar.

Og ég sem hélt að ég hefði leiðrétt eitthvað, neyðist líklega til að horfast í augu við að það er almennt frekar lítið um að þetta gula ljós hennar nái til klofins. Karlmenn eru nefnilega  þrátt fyrir frelsun mína (sem reyndist víst hin mesta blekking), einfaldlega ógeð. Það sýnir rannsókn sem virðist vera nokkuð áreiðanleg og einhver knúsarinn benti mér á í gærkvöld eða nótt. Sami vísindamaður hefur reyndar líka komist að þeirri niðurstöðu að konur séu óttaleg ógeð. Meira um það á morgun og þá væntanlega hér.