Mission accomplished

Kastljósið fjallar um AGS í kvöld.

Ég var búin að segja að ég gæti ekki tekið mér frí fyrr en almenningur væri búinn að fá almennilegar upplýsingar.
Þeir ætla að tala við mann sem er vel inni í málunum í kvöld og svo fremi sem það klikkar ekki, þá er ég frá og með 10 mínútum eftir að Kastljósi lýkur í kvöld, komin í pásu frá pólitík allavega fram að hádegi á fimmtudag.

Hver sem heyrir mig nefna Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða Borgarahreyfinguna fram að því, er beðinn um að troða upp í mig óhreinni borðtusku.

Öskudagur

Ég ætla að vera Jesús á Öskudaginn. Semsagt með hárið slegið, í náttslopp og inniskóm. Ég ætla ekki í vinnu enda þrífst Jesús ekki í Nornabúðinni.

Þetta er náttúrulega bilun

Stundum sekk ég í karlfyrirlitningu sem getur enst vikum saman. Það undarlega er að þessi tímabil standa ekki í neinu sambandi við reynslu mína af tegundinni. Undanfarið hef ég t.d. ekki upplifað neitt sem getur skýrt það hversvegna mig langar beinlínis að fara illa með einhvern. Þ.e.a.s. bara einhvern. Helst einhvern ókunnugan. Ekki neinn sem ég þekki. Þetta er nefnilega ekkert persónulegt og mér líkar vel við flesta menn sem ég er í einhverjum tengslum við. Hins vegar vekur konseptið ‘karlmaður’ mér hvílíka andúð að ég hef beinlínis áhyggjur af því.

Og samt langar mig að vera hjá manni.

Hvar hittir þú maka þinn? (FB leikur)

Ég hef hitt þá sem ég hef átt mök við á ýmsum stöðum.

Suma á trúarsamkomum, nokkra á vinnustöðum eða í skóla. Einn í fangelsi, tvo á veitingastöðum, tvo heima hjá fyrri bólfélögum, einn á internetinu, einn í hitakompu í Kringlunni, hann hafði hlýja nærveru.

Einn gerði mér áhuga sinn ljósan þar sem við tvímenntum á asna í fornsögulegri hellaborg. Það var erótískasti asni sem ég hef riðið.

Einhvernveginn eitthvað

-Ég veit ekki hvernig ég á að orða það, en það er einhvernveginn eitthvað, kannski látbragðið eða hvernig þú ferð alltaf að stara mjög fast niður í borðið þegar ég horfi á þig, sem segir mér að þér líði óþægilega nálægt mér. Samt er eins og þú viljir alveg að ég faðmi þig.
-Elskan. Vert’ekki með svona blá augu.
-Ég er reyndar brúneygur.
-Já, sannarlega. Ég hef einmitt tekið eftir því.

Karamella

Og þegar maður veit fyrirfram að það mun ekki ganga, þá prófar maður eitthvað annað. Skiptir döðlum út fyrir karamellur.

Karamelluaugu eru mjúk, sæt og loða við mann. Höfða einhvernveginn til munnsins. Eins og kossar byrji í augunum.

Ég held að karlfyrirlitning mín sé að ná hámarki.
Gæti hugsað mér að éta einn núna.

Faðmlög eða kossar? (FB leikur)

Faðmlög án kossa geta verið ágæt þótt stundum vilji maður bæta kossi við. Kossar án faðmlaga eru aftur dálítið skrýtin upplifun. Virkar bara í mjög sérstökum aðstæðum. Snerting handa við andlit (eins og það getur nú verið ágætt) er samt ekki faðmlag. Faðmlag felur í sér að einhver tekur þið í faðm sinn, þ.e. umlykur líkama þinn með brjósti og örmum.

Faðmlög: T.d. svona snöggt vinarhótafaðmlag með klappi á herðablað.
Huggunarfaðmlag skal vera mjúkt, þétt, utan um axlir, umvefjandi, stundum svo fast að maður nær varla andanum.
Ástarfaðmlag undir annan handlegg, yfir hinn, með þéttum, mjúkum strokum niður bakið.

Kossar:
Á enni = virðing
Á vanga = umhyggja
Á gagnauga = áhugi
Á nef = kímni
Á hönd = aðdáun
Á háls = losti
Á munn = ást

Ástarkossar; í fyrstu með vörum. Rólega. Fáir, hægir, mjúkir, langir, blíðir, þéttir. Ekki slefa á mig.
Seinna, margir, tíðir, ákafir; tungu takk en vinsamlegast ekki reyna að sleikja á mér vélindað. Tennur, kannski já, varlega þó.

Gæti þegið koss núna, svei mér þá. Eða tvo eða fimmtán.

Nokkrar spurningar í viðbót (FB leikur)

Hvar fæddist þú?
Á Lansanum er mér sagt en ég man ekkert eftir því og það gæti þessvegna verið haugalygi. Um 12 ára aldurinn þótti mér líklegt að ég væri af ættum álfa og hefði verið sett í fóstur í mannheimum. Seinna sá ég fæðingarvottroðið mitt og sannfærðist um að þessi Lansasaga væri allavega að einhverju leyti sönn.

Hefur þú einhvern sérstakan hæfileika?
Já. Ég get talið hvaða eymingjadindli sem er trú um að hann sé algert dýr í bælinu.

Hver finnst þér vera þinn stærsti galli?
Ég hefi öngva galla en ofvaxin réttlætiskennd mín gerir líf mitt stundum erfiðara.

Uppáhalds hljóð?
Hlátur smábarns.
Andardráttur sofandi elskhuga.
Fíngert vorregn sem dynur á trjákrónu í logni.

Ég reikna líka með að ég muni lengi halda upp á taktfast pottaglamur og van-hæf-ríkis-stjórn.

Uppáhaldseftirréttur? 
Helst eftirréttahlaðborð. Ís virkar alltaf. Og eplakaka. Cremé Bruley er snilld. Peruterta klassísk.Annars gildir sú regla að ef það er borið fram með þeyttum rjóma, mun ég að öllum líkindum klára það.

Teygjustökk?
Því ekki? Það hljómar allavega skemmtilega.

Ég er annars að átta mig á því að miðað við hvað stökk hljóma almennt skemmtilega hef ég gert merkilega lítið af því að stökkva. Líka að þegar ég hugsa um stökk, er það alltaf stökk niður, úr mikilli hæð. Ég hugsa t.d. aldrei um hástökk.

Nokkrar spurningar úr FB leiknum

Sumar eða vetur? 
Hver sá sem stingur nefinu út um gluggann og heldur að sé sumar er annaðhvort ísbjörn eða með gervinef.

Háralitur? 
Ég er veik fyrir rauðhærðum karlmönnum einkum ef þeir hafa mikið hár. Synd að rautt hár er yfirleitt orðið muskulegt fyrir þrítugt.

Augnalitur? 
Fallegust eru augu þess sem maður horfir mest á hverju sinni.

Ég hef ort um blá augu, grá, móleit, brún, græn, gul og svört. Það síðasta gæti átt rætur í hugarórum fremur en raunveruleikanum. Ég hef þó aldrei ort um rauð augu, bleik, appelsínugul eða fjólublá.

 

 

Hryllingsmynd eða góður endir? (FB leikur)

Ég fæ alveg sérstakt kikk út úr hrollvekjum. Horfi ekki oft á þær en nýt þess í botn og garga af kröftum. Ég nota hrollvekjur til útrásar, skil myndina algerlega eftir í bíóinu og sef vel á eftir. Flestar hrollvekjur enda vel. Kannski er það hluti af ástæðunni fyrir dálæti mínu á þeim en ég á erfitt með góðan endi nema hafa fengið góðan skammt af móteitri áður.

Ég hef lítið úthald í rómantískar gamanmyndir, tel þær náskyldar klámi en sakir gífurlegra vinsælda þeirra horfi ég stundum á þær með vinkonum mínum. Í 90% tilvika er það tímasóun. Gæti eins hangið á facebook.

Tvö snyrtileg ráð til að kúga aðra án þess að líta illa út

Segðu; er ég rosalega leiðinlegur ef ég hætti við…? þegar þú ert búinn að plana eitthvað með öðrum. Ef þú svíkur einhvern hreint út áttu á hættu að viðkomandi láti í ljós vonbrigði. Með þessu skothelda ráði snýrðu dæminu við. Félagi þinn getur ekki ætlast til að þú standir við planið. Halda áfram að lesa

Uppáhaldsmatur? (FB leikur)

Matur sem einhver annar eldar handa mér. Ég tjái ást mína með því að elda og tek því sem merki um umhyggju ef einhver eldar handa mér, jafnvel þótt viðkomandi meini ekkert með því hafi lag á að eyðileggja kornflex, hvað þá annað.

Ég er annars hrifin af gamaldags, íslenskum heimilismat. Kjötsúpa er snilld og steiktar fiskbollur með karrýsósu og hrossabjúgu með kartöflumús. Ef ætti að taka mig af lífi og ég fengi að velja síðustu máltíðina mína yrði það saltkjöt og baunir.

Ég elda matinn sem ég óslt upp við samt ekki nærri nógu oft. Er voða mikið með eitthvað fljótlegt. Pasta og steikt grænmeti. Ég er ekki mikið fyrir sterk kryddaðan mat en ég held að kæst skata og síld sé það eina sem ég hef smakkað sem ég myndi ekki láta mig hafa að borða í kurteisisskyni.

Rauður eða bleikur? (FB leikur)

Rauður kjóll. Bleik rúmföt. Rautt hár, bleikar geirvörtur (aarrrg… ekki öfugt)

Ég vil gjarnan hafa mjúka og dempaða liti í umhverfi mínu en klæðist yfirleitt sterkum litum. Líklega lít ég á útlit mitt sem tjáningu á karakter en umhverfi sem tjáningu á þörfum. Vertu bleikur við mig, sérstaklega ef þú vilt að ég fari úr rauða kjólnum.

Líkar þér við manneskjuna sem merkti þér þessa umræðu? (FB leikur)

Einar Valur og Freyja frænka klukkuðu mig fyrst.

Ég þekki hvorugt þeirra vel en bæði bjóða af sér góðan þokka. Freyja var uppáhaldsfrænka mín þegar ég var barn og Einar Valur er eini karlmaðurinn sem hefur barið mig

Sennilega hefði ég ekki svarað þessum lista ef mér líkaði ekki við spyrjandann, þótt það væri bara vegna þessarar spurningar. Ég er oft tortryggin gagnvart fólki en sé enga ástæðu til að særa fólk með sleggjudómum mínum svo ég hefði aldrei svarað svona spurningu neitandi. Finnst svoleiðis ‘hreinskilni’ bara ljót. Ég læt fólk ekki viljandi vita að mér líki ekki við það nema það hafi hegðað sér illa eða sé óhóflega uppáþrengjandi en ég ber tilfinningar mínar frekar mikið utan á mér svo ég hugsa að flestir finni það nú fljótt ef ég er neikvæð gagnvart þeim. 

Ef þú værir vaxlitur, hvaða litur værir þú? (FB leikur)

Ég væri vaxlitur, vissulega því þá væri erfitt að lita yfir mig og það finnst mér gaman.

Öll persónuleikapróf eru sammála um að ég sé rauð/appelsínugul.

Ef ég á að benda á fallega liti á litakorti, ekki til að mála heima hjá mér eða klæðast, heldur bara til að meta litinn sjálfan, er líklegast að ég bendi á svona kvöldbirtubláan. Annars er erfitt að lýsa lit með orðum.

Ef þú ættir að deyja innan tveggja ára og mættir velja þér dauðdaga? (FB leikur)

Ég vildi vera kyrkt. Ekki þó af Davíð Oddssyni, heldur af brjáluðum elskhuga sem telur sig vera að bjarga mér frá ástinni. Ekki við Rauðhóla eða meðal villirósa, og alls ekki í skónum, heldur nakin, liggjandi í rúmi með hvítu damaski, kertaljós og Bob Dylan Oh, sister.

Hönd við kverkar. Ná hámarki. Horfa beint inn í augu einhvers sem hún treysti fullkomlega og sjá allt. Allt. Upplifa sannleikann. Upplifa endanlega afhjúpun á öllu helvítis feikinu, allri afneituninni, hræsninni, lyginni og smjaðrinu -í síðasta sinn.

Það gæti nálgast frelsi.