Nokkrar spurningar í viðbót (FB leikur)

Hvar fæddist þú?
Á Lansanum er mér sagt en ég man ekkert eftir því og það gæti þessvegna verið haugalygi. Um 12 ára aldurinn þótti mér líklegt að ég væri af ættum álfa og hefði verið sett í fóstur í mannheimum. Seinna sá ég fæðingarvottroðið mitt og sannfærðist um að þessi Lansasaga væri allavega að einhverju leyti sönn.

Hefur þú einhvern sérstakan hæfileika?
Já. Ég get talið hvaða eymingjadindli sem er trú um að hann sé algert dýr í bælinu.

Hver finnst þér vera þinn stærsti galli?
Ég hefi öngva galla en ofvaxin réttlætiskennd mín gerir líf mitt stundum erfiðara.

Uppáhalds hljóð?
Hlátur smábarns.
Andardráttur sofandi elskhuga.
Fíngert vorregn sem dynur á trjákrónu í logni.

Ég reikna líka með að ég muni lengi halda upp á taktfast pottaglamur og van-hæf-ríkis-stjórn.

Uppáhaldseftirréttur? 
Helst eftirréttahlaðborð. Ís virkar alltaf. Og eplakaka. Cremé Bruley er snilld. Peruterta klassísk.Annars gildir sú regla að ef það er borið fram með þeyttum rjóma, mun ég að öllum líkindum klára það.

Teygjustökk?
Því ekki? Það hljómar allavega skemmtilega.

Ég er annars að átta mig á því að miðað við hvað stökk hljóma almennt skemmtilega hef ég gert merkilega lítið af því að stökkva. Líka að þegar ég hugsa um stökk, er það alltaf stökk niður, úr mikilli hæð. Ég hugsa t.d. aldrei um hástökk.

Best er að deila með því að afrita slóðina