Skjól

Ég hef um víða vegu leitað
að vísu húsi á góðum stað,
sem veitir skjól í vetur kuli
þótt vindar dynji stendur það.

Í ljósi og yl er ljúft að hvíla
við létta voð um blíða nótt.
Þar logar eldur þegar kuldinn
um þétta lúgu smýgur hljótt.

Er kvöldið tjaldar himin húmi,
í hljóðri von ég kem til þín
og veit að minni leit er lokið
ef ljós í glugga þínum skín.

Pandóra

Í nótt, þegar vötn mín vaka
og vindur í greinum hvín
og þúsund raddir þagnarinnar kvaka
hve ég þrái að opna sálar minnar skrín.

Og leysa úr viðjum angist, sorg og efa
uns ólguveður hvata minna dvín.

Og ást mína drepa úr dróma
eitt dulbúið sálarmein,
þá frelsissöngvar feigðarinnar hljóma
meðan fuglinn situr kyrr á birkigrein.

Þar hreiður sitt hann sterkum grösum greipir
sem græða þúfu, moldarbarð og stein,

við djúp minna dularsýna
um deyjandi fjallajurt.
Þó vil ég ekki opna vitund mína
því að vonin gæti líka flogið burt.

Löngu síðar gerði Gímaldin annað lag við þennan texta.

Jólasálmur

Mjöllin sem bómull og brátt koma jól
og borgirnar ljósadýrð skarta
til merkis um hátíð og hækkandi sól
hve hlýnar í sál þér með vorinu bjarta.
Hver dagur er skammur og dimmur sem kvöld
en desemberstjörnurnar minna
á silfraðar kúlur við satinblá tjöld
þá sakna ég augnanna þinna.

Ef óvættir vekja þér angist og beyg
mun engill minn hafa á þér gætur
ef skjár þinn er freðinn af frostrósasveig
ég feginn skal kynda þinn arinn um nætur.
Ég sker þér í laufabrauð skammdegissól
sem skín þér um veturna svarta
með óskum um gæfu og gleðileg jól
ég gef þér að lokum mitt hjarta.

Textinn var skrifaður við lag eftir Óttar Hrafn Óttarsson en það hefur aldrei verið notað. Beggi bróðir minn samdi síðar lag við þennan texta. Það lag hefur mér vitanlega aldrei verið flutt opinberlega heldur.

Fönix

Hvers er vert að kunna og skilja
hvað þig langar, hvert þig ber?
Ef þú þekktir eigin vilja
einfalt reyndist lífið þér.

Þegar þú sérð fuglinn fljúga
fjöllum ofar, mundu það
að alltaf mun hann aftur snúa
á sinn gamla hreiðurstað.

Fornra þjóða eiga fræði
fugl sem æðra frelsi kýs
og þótt í eldinn beint hann æði
úr öskunni hann aftur rís.

Þótt hann brenni bálið heita
birta sólar dregur hann,
eins og þá sem logans leita,
lífið sjálft þeim fugli ann.

Þér í hjarta þrálátt tístir
þessi fugl sitt frelsisstef
og veröldin að vonum þrýstir
vinarkossi á þitt nef.

Gímaldin samdi síðar lag við þetta kvæði og gaf út.

Ljóð handa fiðlara

Svo tónar þínir ljóð mitt galdri glæði
ég grönnum boga snerti fiðlustrengi
sem styður þú með liprum fingrum lengi
uns líf mitt faðmar þitt í söng og kvæði.

Og ef þú heyrir annarlegan tón
sem ekki fellur rétt að þínu lagi
það gæti verið tónn af æðra tagi
þá titrar barmur Óðreris við Són.

Því ég skal gjarnan verða þín ef viltu
vekja hjá mér meira en orðin tóm
og finna þína fingurgóma loga.

Þá komdu nær og strengi þína stilltu
ég strjúka skal úr hverjum þeirra hljóm
því fiðla þín er fánýtt hjóm án boga.