Launkofinn

Ég gekk sem barn um grýttan fjallaveg
Í gjótu fann ég yfirgefinn kofa
Og þangað enn ég þunga byrði dreg
Í þagnarinnar faðmi til að sofa.

Því ég er eins og jarðarinnar grös
og jafnvel tímans mosabreiður héla
í launkofanum liggja brotin glös
sem lærði ég í barnæsku að fela

og enginn getur öðrum manni breytt
né annars gler úr launkofanum borið
þó held ég kannski að hönd þín gæti leitt
huldupiltinn þaðan, út í vorið.

 

Það eru til þrjú lög við þennan texta. Einn eftir Óttar Hrafn Óttarsson, annar eftir Björn Margeir Sigurjónsson og sá síðasti eftir Begga bróður minn.  Ekki veit ég til þess að nokkurt þeirra hafi verið flutt opinberlega. Lagið hans Begga er með millistefi og ég bætti eftirfarandi við til að falla að því.

#Fljótt
nótt,
hjúpar ofirhljótt
þá sem eiga sorgir eða ást í meinum.
Hlær
blær,
á meðan mosinn grær
yfir gjóturnar sem gistum við í leynum.#

Vængbrotinn engill

Þér, gef ég ást mína og frið,
þér, ég opna sálar minnar hlið.
Vængbrotinn engill hefur gefið mér trú
á lífið,
þessi engill, það ert þú.

#Þér vil ég kveða, minn þýðasta brag,
sofna við elsku þinnar ómstríða lag,
vakna til nýrrar gleði að morgni
og aftur næsta dag.#

Þú, hefur tendrað mér eld,
vafið angur mitt í vonarfeld.
Hjarta mitt snortið, vakið mjúkleika minn
og veikan
skal ég græða vænginn þinn.

Skref í rétta átt

Þú veist sem er að góðir hlutir gerast hægt
og hljótt, og hljótt.
Þó miðar lítið nema leggir við þá rækt
og þrótt, og þrótt.
Stígðu skref, stígðu skref í rétta átt
Stígðu eitt skref í einu í rétta átt.

Þér yrði heilladrýgst að hamra járnið heitt
og þá og þá
þá gæti næsta spor þitt draumi í dáðir breytt
ójá, ójá.
Hvers virði er æðruleysi ef þig vantar vit
og kjark og kjark.
Hvert grátið tár mun gefa tilverunni lit
og mark, og mark.

Lítil mús

Eitthvert undarlegt tíst
er mitt hjarta að hrjá,
og ég get ekki lýst
því sem gengur þar á.
Eins og lítil mús
sem enginn maður hræðist,
hafi sest þar að.
Lítil mús sem læðist.

Fyrir forvitni rak
trýnið titrandi út,
hrökk þá aftur á bak
og sig hnipraði í hnút.
Hungri litlar mýs
þær inn í hús þitt leita.
Mitt hjarta er mús
Og brosið þitt er beita.

Óður til vindanna

Hvert ertu að fara
og hvað viltu mér?
vindur sem örlög og vályndi ber.
Gjóstar byljum, blæs og hrín
vindum næðir, hvessir, hvín.
Kvíða minn nærir
og hvekkir og ærir
og nauðar og gnauðar
og nístir og sker.

Hlustaðu vinur
á vindanna mál,
andvarans söngva
og illviðra bál.
Hvíslar í laufi lognið milt,
fingri um vanga strýkur stillt,
„stjórnlaust þann rekur
sem stormurinn skekur
hann rífur og hrífur
þitt hjarta og sál.“

Snjókorn á kinn þína tylla sér stillt
Fannhvít þótt dansi í fjúkinu villt
-og brjáluð og tryllt.
Vindanna þekkja þau veg
og veðranna heim
og setjast að lokum um kyrrt
þótt þau svífi með þeim.

Laufblaðið vindinum leikur sér í,
fellur til jarðar og fýkur á ný
-upp í veðranna gný.
Vindanna þekkir það veg
og veðranna heim.
og fellur að lokum til jarðar
þótt feykist með þeim.

Þekkirðu bróður minn vindanna vin?
Hann elskar storma og stórveðrahvin
-og þrumunnar dyn.
Vindanna þekkir hann veg
og veðranna heim.
og hann kemur aftur til jarðar
þótt hrífist með þeim.

Þér á vald ég gefast vil
vindur kær og hrífast með.
Fljúga hærra upp í himins hvítu ský,
fljúga hærra og falla til jarðar á ný.

Ljúfur þytur í laufi
hefur hvíslað að mér.
„Lærðu vindanna veg,
fagnaðu öllu sem blærinn þér ber
Lærðu vindanna veg.“