Óður til vindanna

Hvert ertu að fara
og hvað viltu mér?
vindur sem örlög og vályndi ber.
Gjóstar byljum, blæs og hrín
vindum næðir, hvessir, hvín.
Kvíða minn nærir
og hvekkir og ærir
og nauðar og gnauðar
og nístir og sker.

Hlustaðu vinur
á vindanna mál,
andvarans söngva
og illviðra bál.
Hvíslar í laufi lognið milt,
fingri um vanga strýkur stillt,
„stjórnlaust þann rekur
sem stormurinn skekur
hann rífur og hrífur
þitt hjarta og sál.“

Snjókorn á kinn þína tylla sér stillt
Fannhvít þótt dansi í fjúkinu villt
-og brjáluð og tryllt.
Vindanna þekkja þau veg
og veðranna heim
og setjast að lokum um kyrrt
þótt þau svífi með þeim.

Laufblaðið vindinum leikur sér í,
fellur til jarðar og fýkur á ný
-upp í veðranna gný.
Vindanna þekkir það veg
og veðranna heim.
og fellur að lokum til jarðar
þótt feykist með þeim.

Þekkirðu bróður minn vindanna vin?
Hann elskar storma og stórveðrahvin
-og þrumunnar dyn.
Vindanna þekkir hann veg
og veðranna heim.
og hann kemur aftur til jarðar
þótt hrífist með þeim.

Þér á vald ég gefast vil
vindur kær og hrífast með.
Fljúga hærra upp í himins hvítu ský,
fljúga hærra og falla til jarðar á ný.

Ljúfur þytur í laufi
hefur hvíslað að mér.
„Lærðu vindanna veg,
fagnaðu öllu sem blærinn þér ber
Lærðu vindanna veg.“

Share to Facebook