Fatt

Ég hafði eiginlega hugsað mér að fara í ljós og verja svo seinni partinum fyrir framan spegilinn, lakka táneglur mínar með perlumóðurlakki og þekja yndisfagran líkama minn með appelsínuhúðareyði, vaxstrimlum, hárnæringu og maska, alveg þar til spegillinn segði hátt og skýrt;

fegurð þinni fagna ber
og falla nú brátt að fótum þér,
fimmþúsund lúðar, leiðir á að fróa sér,

eða eitthvað álíka skáldlegt. En – ég var semsé hreinlega að blogga á mig og allt í einu var klukkan orðin 7 og Spúnkhildur á leiðinni.

Fegrunaraðgerðir fóru því að verulegu leyti út um þúfur. Ég hentist í sturtu, sleppti djúpnæringunni og maska- og kremasafninu og skóf menjarnar um forföður minn snjómanninn hræðilega af næpuhvítum fótleggjunum með bitlausri einnotasköfu sem þegar hefur verið 5 sinnum (hugsanlega oftar því annaðhvort er sonur minn Fatfríður réttnefndur taðskegglingur, ellegar hann rakar sig í laumi.) Að þessum aðgerðum loknum leit ég ennþá út eins og ósköp hversdagleg Eva. Ég vissi að mér yrði kalt en sagði samt fokkitt og fór í táldráttarkjólinn.

Petra von Kant valtaði yfir dóttur sína, móður, vinkonu, ástmey og ambátt af mikilli röggsemi og má segja að þar hafi Barbara Cartland hitt Ibsen. Skrattanum var skemmt. Ég gaut glyrnum á fyrrum unnusta minn, þann er á dramatísku augnabliki reyndist ekki eiga tíkall og velti því fyrir mér hvort sápan á sviðinu gæti nokkurntíma freytt jafn hressilega og sápuópera hversdagsleikans.

Fyrr á þessu ári horfði ég á hann á sviði, þar sem hann lék á móti trúnaðarvini mínum og fyrrum bólfélaga, sem aftur er fyrrum unnusti systur æskuástmeyjar hans (þ.e.a.s. mannsins sem átti ekki tíkall.) Nú situr hann hér og horfir á sambýliskonu sína og æskuunnustu kyssast á sviði. Og það er svosem alltsaman voða mikið í þykjustunni en önnur fyrrum sambýliskona hans og barnsmóðir er hinsvegar alvörulesbía og það vill svo skemmtilega til að systir þeirrar er einmitt fyrrum sambýliskona mín og tókst henni ekki að reka af sér lessuorðsporið fyrr en hún fékk vinnu í KB banka og hóf sambúð með karlmanni, Öryrkjanum, sem aldrei hefur verið orðaður við lessugang né annan öfuguggahátt.

Það var skítkalt í partýinu sökum þess að reykingamenn vaxa ekki upp úr opendoor syndrominu eins og annað fólk. Ég huldi því táldráttarkjólinn undir kápunni enda enginn leiksveina verulega táldraganlegur, og heldur ekki sérlega táldráttarlegur að sjá.

Maðurinn sem átti ekki tíkall heilsaði mér.
-Hvað segir þú gott? sagði hann og enda þótt spurningin væri augljóslega sett fram sem venjulegur kurteisisvottur en ekki til eiginlegrar heimildaöflunar um persónulega hagi mína, fann ég hjá mér einhverja undarlega hvöt til að gefa honum heiðarlegt svar. Ég hugsaði mig andartak um. Er eitthvað sérstaklega jákvætt af mér að frétta, nei í rauninni ekki. Neikvætt þá? Nei ekki heldur. Er ég hamingjusöm? Nei langt frá því en ég á heldur ekkert bágt.
-Bara allt svona þokkalegt, sagði ég, það gerist varla mikið skárra.
-Nú. Fer lífið eitthvað illa með þig? sagði hann og ég missti andlitið. Drottinn minn dýri, kannski það hafi verið áhrifin af hinum beisku tárum á leiksviðinu sem mögnuðu upp í mér freðýsuheilkennið? Eða frétti hann af nýjasta dömpinu og vildi sýna hluttekningu???

As good as it gets, var það sem ég vildi sagt hafa en það sem hann heyrði hefur væntanlega verið argasta harmaklám. Mér þykir það leitt því lífið fer vel með mig og maður á fjandinn hafi það að láta helvítis tíkina njóta sannmælis. Ég er þó, hvað sem allri sápuóperu líður, bæði heilbrigðari og fallegri en lífsstíll minn gefur tilefni til, skítblönk en þó skuldlaus við aðra en LÍN (og svo náttúrulega þessi yfirdráttarheimild en ég á útistandandi fyrir henni) drengirnir mínir eru öðrum unglingum dásamlegri og í raun hef ég ekki yfir neinu að kvarta nema þá karlmannsleysi og maður getur ekki reiknað með að fá allt.
-Nei, alls ekki sagði ég, lífið er gott við mig.

Mér datt í hug að það gæti verið kvikindislega líkt mér að bæta við; það eru mennirnir sem ég er góð við sem fara illa með mig, en mér líkar hreint ekki vel við allt sem er líkt mér og auk þess fann ég enga löngun til að kvelja hann. Sú löngun hvarf fyrir löngu, fyrir mörgum árum um leið og firðrildið í hjartanu mínu flaug burt.

Ég skil sjálfa mig alveg, ég veit hvað ég sá við hann og hversvegna það heltók mig svona. En allt í einu átta ég mig á því að það var ekki návist hans sem ég þráði. Skyndilega rennur það upp fyrir mér hvað það í raun var sem þessi geðsýki í mér snerist um. Hefði ég kosið návist hans? Nei, ekki til lengdar. Kannski í nokkra mánuði, hugsanlega ár en aldrei til lengdar. Verkjaði mig þá svona hræðilega í dömpsárið í öll þessi ár? Nei ekki heldur, ég hef aldrei reiknað með því að fá allt sem ég vil. Hversvegna tókst mér þá ekki að sleppa takinu á þessari sáraukafullu þráhyggju sem hélt mér í heljargreipum í meira en 5 ár? Ég hef ekki tölu á því hve margar tilraunir ég gerði til að kveðja hann. Ég orti mig frá honum aftur og aftur, fyrirgaf honum í huganum og á blaði, aftur og aftur. Fór með ímynduð blóm að ímynduðu leiði. Forðaðist hann. Neyddi sjálfa mig til að hitta hann. Varð drulluskotin í öðrum en þurfti ekki annað en að sjá honum bregða fyrir til þess að plokka hrúðrið af sárinu. Núna skyndilega eftir öll þessi ár er ég að átta mig á því hvað gekk að mér.

Man eftir augnablikinu þegar fiðrildið losnaði úr púpunni og flaug.

-Nei. Ég vil ekki að þú gistir, sagði hann, því ég er ekki ástfanginn af þér og ég fór illa með þig og ætla ekki að gera það aftur.

Þá nótt svaf ég rótt og fannst það þversagnarkennt en skýrði það þannig fyrir sjálfri mér að ég þetta væri líklega eins og þegar lík finnst eftir langa leit, þegar syrgjandinn loksins sleppir takinu á von sem hann vissi að var tilgangslaus en ríghélt samt í, allt þar til staðfesting fékkst, það er endanlegt, ekkert getur breytt því.

En það var ekki bara það. Líklega var ég þá þegar löngu hætt að syrgja hann. Ég hef ekki hugsaði út í það fyrr en því lýstur allt í einu niður í kollinn á mér; það var þessi viðurkenning; ég fór illa með þig. Viðurkenning á því að líklega hefði það fjandakornið verið tíkallsvirði að gera þetta eina sem ég bað hann um. Ég áttaði mig skyndilega á því fyrst í gærkvöld að líklega hefur það verið þessi pínulitli vottur um iðrun sem gerði mér fært að fyrirgefa honum, þykja vænt um hann án þess að finna til nístandi sársauka, njóta þess að hitta hann án þess að hafa minnstu löngun til að sofna við hliðina á honum, hvað þá að vakna þar aftur.

Best er að deila með því að afrita slóðina