Kvold á púbbinn

Partýið var ekki alveg að gera sig. Ég hafði vonast eftir nostalgísku syngisamkvæmi en einhvernveginn snerist það upp í íþróttamót þar sem allir áttu helst að taka þátt ellegar snarhalda kjafti á meðan hinir íþróttuðu. Ég rölti með Spúnkhildi og æskuunnustu mannsins sem átti ekki tíkall yfir á minn eigin vinnustað. Þar var rólegt, einu karlkúnnarnir í fylgd kvenna eða á aldur við föður minn og þar sem ég sá loksins hring Kynþokkaknippisins 2 dögum eftir að ég fékk frátekningu hans staðfesta hjá Pólínu, sá ég síst meiri ástæðu til að flagga táldráttarkjólnum þar en í samkvæminu.

Ég fór á klósettið. Þar voru 3 kerlingar á trúðaðarstiginu, allar á sextugsaldri með glös útklínd í varalit. Ég horfði í spegilinn og þrátt fyrir táldráttarkjólinn sagði hann ekki fríðleik þínum fagna ber. Ég þráði snertingu, svo ákaft að ef Bruggarinn forkunnarfagri hefði verið a) á staðnum, b) viðræðuhæfur, c) táldraganlegur, hefði ég vafalítið boðið honum táldrátt. Samt sem áður vakti það mér takmarkaða gleði að finna kalda fingur vaða undir bakhlíra táldráttarkjólsins þegar ein af fyrrnefndum kerlingum fann sig knúna til að hylja fatahanka sem stóð undan honum.

-Heyrðu góða, væri þér sama … sagði ég gröm og hún flýtti sér að biðjast afsökunar, það væri bara svo ljótt að sjá svartan hanka standa undan svona fínum kjól.

Það er einmitt fólk af þessu tagi sem gerir það að verkum að ég vil helst komast hjá því að vera í sal. Mér hálfbrá þegar ég sá augnaráð mitt í speglinum og fann til ákafrar löngunar til að hreyta í hana: reyndu svo að skíta ekki út á setuna frekjujússan þín, það er ég sem þríf subbuskapinn eftir þig og aðrar fyllibyttur. Auðvitað sagði ég það samt ekki.

Það er eiginlega með ólíkindum hvað fólk leyfir sér þegar það er komið í glas og það er þessvegna sem ég get ekki hugsað mér að vera í salnum. Vinur minn varð eitt sinn fyrir því þegar hann vann sem þjónn að ein kerlingarbeyglan ætlaði að fara að gyrða hann og ég er ansi hrædd um að ég léti eitthvað óviðurkvæmilegt flakka ef ég yrði fyrir þessháttar framkomu oftar en einu sinni sama kvöldið, hvað þá í vinnunni.

Gaman að fara í leikhús og gaman að spjalla við stelpurnar, ég þyrfti að hitta æskuunnustuna oftar. Spúnkhildur fór af stað með það að markmiði að hrynja rækilega í það, ég ætlaði að sofna í fanginu á einhverjum. Hvortveggja mistókst að öðru leyti var kvöldið aldeilis ágætt og ég lærði nýtt orð sem ég vafalaust mun nota óspart hér eftir til nánari útlistunar á þeim góðu orðum tregahóra og harmaklám, það er orðið tragedíurúnkari. Á þessari stundu bíð ég eftir símtali frá einum slíkum.

Best er að deila með því að afrita slóðina