Bréf til RÚV

Kæra RÚV

Mig langar í helling af peningum og varð því mjög glöð þegar fréttir bárust af því (samkvæmt áreiðanlegum heimildum) að meðlimir Saving Iceland fengju greitt fyrir að vera handteknir. Þar sem fréttastofa RÚV hefur aðgang að áreiðanlegri heimildamönnum en ég sjálf, og Óli aktivisti, Haukur sonur minn, Siggi pönk og Helga gamla anarkistaamma, harðneita öll að borga mér svo mikið sem krónu með gati, fer ég þess á leit að fréttastofa upplýsi mig um eftirfarandi atriði:

-Hvaða fjársterku aðilar útvega hreyfingunni fé til að borga mér?
-Hversu mikið ég fæ fyrir minn snúð?
-Er virðisaukaskattur innifallinn í þóknuninni eða leggst hann ofan á?
-Er þóknunin kannski ekki gefin upp til skatts?
-Er sami taxti fyrir alla eða hef ég möguleika á að hífa mig upp? (t.d. upp í krana)

Sú spurning sem brennur heitast á mér er þó þessi:
-Hvert ég á að senda reikninginn?

Um leið og ég fer fram á svör við þessum spurningum vil ég koma því að að samkvæmt heimildum sem ég tel áreiðanlegar, fá fréttamenn RÚV aukagreiðslur í formi kókaíns ef þeir ná að plata þjóðina með innistæðulausi bulli. Ég hef ekki í hyggju að færa nein rök fyrir þessari staðreynd en verði ég beðin um það mun ég standa við það sem ég segi.

 

Út um rassgatið á sér

Stundum efast ég um að fólk geti virkilega verið eins vitlaust og það gefur sig út fyrir að vera. Umræðurnar á Moggablogginu í framhaldi af uppákomu nokkurra aktivista í Kringlunni í gær eru gott dæmi. Hver bloggarinn af öðrum lýsir hneykslun sinni en virðist ekki hafa áttað sig á því hvað málið snýst um. Halda áfram að lesa

Þarf þetta ekkert að vinna?

Þegar Þórunn Gréta ákvað að fara sem skiptinemi til Þýskalands, undirbjó hún sig vel. Ekki bara með því að læra þýsku heldur gerði hún líka ráð fyrir tekjumissi og auka útgjöldum. Hún vann mikið og eyddi litlu og þegar hún fór út átti hún peninga til ferðarinnar. Hugsanlega hafa afar og ömmur gaukað að henni nokkrum mörkum en ég veit að það var ekki mulið undir hana og að mamma hennar var ákaflega stolt af því hvað hún sýndi mikinn sjálfsaga. Mér fannst Þórunn Gréta vera dugleg stelpa og reikna með að allir sem þekkja hana taki undir það. Halda áfram að lesa