Froðusnakk í hófi takk

Fátt kemur hér á óvart.

Erindið var að skora á Ólaf Ragnar að undirrita ekki fjárlögin. Hann gaf ekkert út á það og ætlar heldur ekki að axla neina ábyrgð á því að hafa mært útrásina. Af þessum sökum líta fundarmenn svo á að þetta hafi verið slæmur fundur enda þótt kakóið hafi eflaust verið fyrirtak.

Ég er reyndar ekki sammála því að fundurinn hafi verið tilgangslaus. Núna er búið að láta herra forsetann vita af því formlega að til er fólk sem ætlar ekki að taka því þegjandi ef frumvarpið fer í gegn. Ólafur Ragnar Grímsson getur því reiknað með að næst þegar óánægðir borgarar banka upp á hjá honum, verði það ekki nein kurteisisheimsókn.

Ég sá á umræðusíðu sem ég er ekki skráð á sjálf, að einhver telur sig hafa áframsent á mig boð frá Jóhannesi í Bónus um kaffi og kleinur. Ég hef ekki fengið þennan póst af einhverjum ástæðum. Ekki svo að skilja að það skipti neinu máli. Það viðskiptasiðferði sem Baugsmenn hafa viðhaft er einfaldlega of gróft til þess að ég ætli eitthvað að fara að ræða það yfir kaffi og kleinum. Stundum er sjálfsagt að ræða málin, eins og t.d. þegar skorað er á forsetann að beita valdi sínu en það eru takmörk fyrir því hversu mikið froðusnakk maður lætur bjóða sér upp á.

mbl.is Ólafur og Dorrit buðu mótmælendum upp á kaffi

Sveltum svínið

Á Þorláksmessu stendur aðgerðahópurinn ‘Sveltum svínið’ fyrir aðgerð sem allir geta tekið þátt í, hvar sem þeir eru á landinu, óháð aldri, líkamsstyrk, hugrekki, samfélagsstöðu eða efnahag. Enginn lendir í hættu á að verða fyrir ónæði af hálfu lögreglu því við erum ekki að fara að gera neitt sem nálgast það að ögra ramma laganna. Við þurfum ekki einu sinni að láta aðra vita af því að við séum með í þessu ef við óttumst að verða fyrir tuði út af því. Meira að segja Jón Kjartan hlýtur að leggja forpokun sína gagnvart mótmælaaðgerðum til hliðar fyrir þessa aðgerð. Halda áfram að lesa