Froðusnakk í hófi takk

Fátt kemur hér á óvart.

Erindið var að skora á Ólaf Ragnar að undirrita ekki fjárlögin. Hann gaf ekkert út á það og ætlar heldur ekki að axla neina ábyrgð á því að hafa mært útrásina. Af þessum sökum líta fundarmenn svo á að þetta hafi verið slæmur fundur enda þótt kakóið hafi eflaust verið fyrirtak.

Ég er reyndar ekki sammála því að fundurinn hafi verið tilgangslaus. Núna er búið að láta herra forsetann vita af því formlega að til er fólk sem ætlar ekki að taka því þegjandi ef frumvarpið fer í gegn. Ólafur Ragnar Grímsson getur því reiknað með að næst þegar óánægðir borgarar banka upp á hjá honum, verði það ekki nein kurteisisheimsókn.

Ég sá á umræðusíðu sem ég er ekki skráð á sjálf, að einhver telur sig hafa áframsent á mig boð frá Jóhannesi í Bónus um kaffi og kleinur. Ég hef ekki fengið þennan póst af einhverjum ástæðum. Ekki svo að skilja að það skipti neinu máli. Það viðskiptasiðferði sem Baugsmenn hafa viðhaft er einfaldlega of gróft til þess að ég ætli eitthvað að fara að ræða það yfir kaffi og kleinum. Stundum er sjálfsagt að ræða málin, eins og t.d. þegar skorað er á forsetann að beita valdi sínu en það eru takmörk fyrir því hversu mikið froðusnakk maður lætur bjóða sér upp á.

mbl.is Ólafur og Dorrit buðu mótmælendum upp á kaffi
Share to Facebook

One thought on “Froðusnakk í hófi takk

  1. ——————————————————–

    Þó það nú væri að Bessastaðabóndinn byði ykkur inn fyrir í kuldanum. 

    Svo tönnlast blaðamaðurinn á kaffi, þegar þið fenguð, eins og þú segir, indælis kakó – ekki einu sinni það getur hann haft rétt. 

    Ég hef einu sinni verið gestur á Bessastöðum, að vísu af ánægjulegra tilefni, það er gaman að koma inn í þetta gamla, virðulega hús, – svona per se.

    Kom þar samt aldrei meðan frændi bjó þar. Fór einu sinni með afa og fleiri barnabörnum hans að tína kríuegg í fjörunni þarna niður af.

    Ef þetta er rétt sem Björn S. segir er ég á því að Ólafur verði að undirrita. Koma ekki hvort sem er ný fjárlög ef ný ríkisstjórn tekur við, eða er hún tilneydd að taka tillit til þessara fjárlaga? Ég bind nefnilega mestar vonir um að það verði kosið næsta vor, í maí.

    Greta Björg Úlfsdóttir, 23.12.2008 kl. 12:17

    ——————————————————–

    Varla dettur nokkrum manni í hug að humyndin sé sú að hafa bara engin fjárlög!

    Það liggur í augum uppi að ef forsetinn undirritar ekki fjárlögin, þá neyðist þingið til að gera nauðsynlegar breytingar á þeim með hraði.

    Eva Hauksdóttir, 23.12.2008 kl. 13:29

    ——————————————————–

    Já, auðvitað er það þannig, Eva! …

    Greta Björg Úlfsdóttir, 24.12.2008 kl. 09:13

Lokað er á athugasemdir.