Ég er með höfuðið fullt af dónalegum hugsunum. Ég sé eitthvað dónalegt við hluti sem eru alls ekki dónalegir. Ég veit ekki einusinni hvort ég er með klofið á heilanum eða heilann í klofinu. Um síðustu helgi dreymdi mig m.a.s. dónaskap. Ég hélt að það kæmi bara fyrir stráka en kannski tala stelpur bara ekki mikið um svoleiðis. Ég vona allavega að ég tali ekki mikið upp úr svefni. En stelpurnar eru alltaf sofnaðar löngu á undan mér og ég vakna á undan þeim líka svo það er ekki mikil hætta á að þær fatti það. Freyja talar stundum upp úr svefni en aldrei um neinn dónaskap.
Greinasafn fyrir merki: Minningabókin
Dagbók frá 7. bekk 14
Það kom eitthvað mjög skrýtið fyrir mig í dag. Það byrjaði eiginlega í síðustu viku með því að við Diddi Dóri fórum í vatnsslag og hvorugt okkar þoldi að tapa svo við erum búin að vera í þriggja daga vatnsslag. Og líka að tuskast en stundum verður óvart alvöru slagur úr því. En það byrjar samt alveg í góðu.
En í gærkvöldi vorum við að tuskast í góðu og svo varð ég reið af því að hann sagði asnalegan brandara um rassinn á mér. Ég lét samt sem ekkert væri. Aldrei að gefa höggstað á sér. En svo í enskutíma í dag, þá henti hann pappírsskutlu í mig og þá varð ég brjáluð og henti enskubókinni í hausinn á honum. Ég hitti reyndar ekki en hann kastaði bókinni til baka í mig og hitti og þá varð ég ennþá reiðari og svo fórum við að slást inni í tíma. Villa reyndi að vera brjáluð en hún var ekki mjög sannfærandi. Hún hótaði að henda okkur út en stóð ekki við það þótt við byrjuðum aftur. Svo eftir tíma héldum við áfram og hann elti mig niður á herbergi og við fórum að slást þar. En þá vorum við ekki lengur reið svo það var eiginlega ekki slagur heldur tusk.
Síðan lá hann ofan á mér og þá gerðist eitthvað skrýtið inni í mér. Svona titringur undir húðinni eins og þegar maður hlustar á æðislegt lag mjög hátt stillt og ég fékk hjartslátt. Ég sá alveg að þetta sama kom líka fyrir hann og hann var mjög asnalegur á svipinn og örugglega ég líka. Við hættum alveg að slást. Síðan fór hann bara og ég var svona skrýtin í smástund. Það sem pirrar mig núna er að ég veit ekki hvað svona heitir og mér finnst ég svo mikill plebbi. Hann veit það örugglega og það fer líka í taugarnar á mér.
Dagbók frá 7. bekk 13
Ég er ekki hrifin af Didda Dóra. Eiginlega förum við mikið í taugarnar á hvort öðru og hann segir “mér langar” og svoleiðis vitleysur. En það er samt svo skrýtið að það er eins og hausinn á mér snúist ósjálfrátt í áttina að honum og ég get ekki látið hann í friði og við erum alltaf að tuskast. Ég tuskast líka við Eyvind í mínum bekk en það er ekki eins gaman. Hann á það til að meiða mig. Ég er með fullt af marblettum eftir Didda Dóra en það er samt öðruvísi af því að gerist meira óvart. Mér er sama þótt ég meiðist en ég vil ekki láta meiða mig. Eyvi er svo mikill plebbi að hann fattar ekki muninn. Mig langar að vera hrifin af einhverjum af því að þá er maður alltaf svo titrandi inni í sér en ég er ekki hrifin af neinum núna. Ég er að reyna að æsa mig upp í að verða hrifin af Villa en það gengur ekki neitt. Hann er líka frekar harðhentur og svo kallar hann mig alltaf Jónka Tröll. Það angrar mig samt ekkert.
Dagbók frá 7. bekk 12
Það er ekkert gaman núna. Helgi spurði hvort ég vildi koma í bíó með sér. Ég væri alveg til í það ef það væri bara einhver annar. Mér er strítt á því að hann sé hrifinn af mér og ég var ekkert almennileg við hann í kvöld. Rósa er leiðinleg við mig. Hún er alltaf að tala um hvað ég sé feit og hvað brjóstin á mér hossist mikið. Svo er ég með bólu á hökunni og hún fer ekki hvernig sem ég kreisti hana. Ég vona að hún fari um helgina.
Dagbók frá 7. bekk 11
Ég skil ekki hvað þetta er með hann Rúnar. Þessi prúði drengur lætur alveg eins og fífl. Það geri ég reyndar líka en ég er hins vegar ekkert óvön því. Gunna á Ási heldur að það sé af því að hann hefur alltaf verið ofverndaður og nú er hann frjáls. Ég er líka ofvernduð en ég gat samt hegðað mér kjánalega í gamla skólanum en ekki hann af því að foreldrar hans voru alltaf nálægir.(1) Foreldrar eru mjög óhollur félagsskapur til lengdar. Ég er mjög glöð yfir því að hafa mömmu ekki alltaf ofan í hálsmálinu á mér lengur.
(1. Foreldrar Rúnars unnu við skólann.)
Dagbók frá 7. bekk 10
Ég þoli ekki mömmu. Hún kom í skólann með fullt af nammi harðfisk og allskonar og það var ágætt. En Ásgeir í 9. bekk hélt að hún væri 18 ára og fannst hún mjög myndarleg. Eins og Ásgeir er skemmtilegur strákur. En hann tekur ekkert eftir mér og finnst ég örugglega algjört smábarn. Við töluðum helling um Guð og kirkjuna í gærkvöldi og þegar ég fór heyrði ég hann segja við Kidda að ég væri mjög spes krakki. Semsé krakki en ekki stelpa. En hann er samt mjög fínn. Mér er hinsvegar illa við Kidda. Hann er heimskur monthani en þeir Ásgeir eru svo miklir vinir að maður getur ekki talað mikið við Ásgeir nema þurfa að tala við Kidda líka. Ég er samt ekki hrifin af Ásgeiri en mér finnst samt ekkert gaman að hann skuli vera svona heillaður af mömmu minni.
Dagbók frá 7. bekk 9
Helgi er hrifinn af mér. Í dag fórum við út í líffræðitímanum og hann bar mig yfir lækinn. Mér finnst gaman að einhver skuli vera hrifinn af mér en mér finnst leiðinlegt að það skuli vera hann. Hann er áreiðanlega góður strákur en hann líkist helst gömlum bónda og er ekki myndarlegur. Ég er samt almennileg við hann enda er ég sjálf ljót og ljótt fólk á ekkert skilið að aðrir séu ekki almennilegir við það. En ég vildi samt að einhver annar væri hrifinn af mér en ég veit ekki hver ég vil að sé það. Allavega ekki Diddi Dóri.