Sálumessa

Af mold ertu kominn
til moldar skal hverfa þitt hold
og hvílast í ró
fjarri eilífð og upprisudómi
en af hverju grátum við dauðann
og greftrun í fold
ef sálin án líkama svífur
í tilgangsins tómi?

Og hver er þá tilgangur andans
ef hold verður mold
og tilgangur holdsins
ef tengslin við sálina rofna?

Eitt annarlegt faðmlag í myrki
á óræðum stað
svo holdlega andlegt
mun aftaka vafann um það;

af mold er mitt hjarta
og býður þér þreyttum að sofna.

Gímaldin samdi lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Ástkonan

Er klæðist mánagyðjan möttli skýja
og myrkrið drýpur hljótt af birkigreinum
og skuggaverur skjótast undan steinum
skæruárar óttans dyra knýja.

Þá napur gjóstur nístir inn að beinum
og náköld skelfing grafarhúmsins hvískrar
og ryðgað hliðið hriktir, marrar, ískrar
með harmaþrungnum sorgarinnar kveinum.

Þar moldarinnar yfir opnu sári
ein hún grætur einu köldu tári
sem falli hrím á fylgju elskhugans

en engin blóm hún leggur á hans leiði
Í leynd svo engan veruleikinn meiði
vill hún í myrkri vitja grafar hans.

 

 

Andlit barns

Kannski veistu aldrei hvar þú stendur
né hver ég er.
Engill er ég ekki af himnum sendur
en er þó hér.
Og fjandinn er af félögunum kenndur
því fer sem fer.

Sérhver er með sínu marki brenndur
það sagt er mér.
Fjall er ég og fagrugrænar lendur
og flæðisker.
Andlit hef ég barns en öldungs hendur
og auga á þér.

Vetrarkvíði

Inn um gluggann opinn hef ég flogið
eins og lítil fluga á sumarmorgni
því eðli mitt ég saug úr sykurkorni
en samt ég hef að flestum um það logið

kankvís hef ég kitlað á þeim nefin
þó kemur mér í hug að liðnum degi
að leiki vafi á hve létt það vegi
að ljúga til að fljúga, það er efinn

hversu lengi kiltur mínar duga
því kónulærnar hlakka brátt í fenginn,
þær vetrarkvíða vefa yfir engin
og vænting mín er orðin lítil fluga.

Skuggar

Að daðra við aðra og drekka af stút
ó drottinn minn hve gott það er.
Liggja og þiggja en laumast svo út
og lofa þeim að gleyma mér.

Ég leyni ekki neinu er leggstu mér hjá
og lætur sem viljirðu skilja og sjá
þann gáska og háska og gleði og þrá.
sem gráa svæðið vekja má.

Skoðaðu eigin skugga og þú munt skilja
þann hataða hvataflaum sem fáir vilja
horfast í augu við en hug sinn dylja
og óttast að aðrir telji
undarlegan.

Þú þekkir mig ekki og þó ertu hér
hvað þvingaði þig hingað inn?
Sáttur við dráttinn það sagðirðu mér
En samt er skammt í barlóminn.

Því lostinn er brostinn og fullnægjan feik
og frelsið er helsi ef trúin er veik.
Og þú biður því miður um mánaðarbreik
því þú meikar ekki þennan leik

Leikum þá annan leik, minn kæri ljáðu
mér eyra að heyra sögu mína og sjáðu
sálar minnar djúp og snertu og sláðu
hjarta míns heita og hrjáða
hörpustrengi.