Svar til Jónasar

Minn er sveinninn svinni
með sléttan maga og þétta
hönd og hvelfdar lendar,
herðar breiðar gerðar.
Mánabirtan brúna
brosir hrein við drósum.
Veit hann vörum heitum,
votum hvar skal beita.

 

Saga handa Anonymusi

Einu sinni var lítið lýðræðisríki sem hét Afþvíbaraborg. Í Afþvíbaraborg giltu lög og reglur eins og í öðrum lýðræðisríkjum. Afar sanngjörn lög og fullkomin. Ein greinin í lögum um rétt manna til atvinnu, kvað t.d. á um að menn mættu byggja ljótar og illalyktandi síldarbræðsluverksmiðjur í almenningsgörðum, ef þá langaði í nýjan fjallajeppa. Í lögum um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna sagði að menn mættu beita maka sína „líkamlegum hvatningaraðgerðum innan hóflegra marka“ ef þeir leggðu ekki nógu mikið til heimilisins. Svona var nú réttarfarið fullkomið í Afþvíbaraborg. Allt skráð í bókina með milligreinum, reglugerðum og öllu. Halda áfram að lesa

Málfræðitími

Málfræðitími  (til drengsins sem fyllir æðar mínar af endorfíni)

Í málsins leik er merking hjartans rist
því málfræðinnar undur aldrei þagna.
Mig þú kyssir, kysstir, hefur kysst
í kennimyndum sagna.

Ef ég þyrði… þótt ég vildi mest…
þótt ég gæti… ef ég bara mætti…
þá voru okkar viðurky/inni best
í viðtengingarhætti.