Svar til Jónasar

Minn er sveinninn svinni
með sléttan maga og þétta
hönd og hvelfdar lendar,
herðar breiðar gerðar.
Mánabirtan brúna
brosir hrein við drósum.
Veit hann vörum heitum,
votum hvar skal beita.

 

Kvæði handa pysjupeyja

Húm yfir Heimakletti
hnigin er sól við Eyjar
merla sem máni á sjónum
malbikið ljós frá húsum.
Lundi úr holu heldur
hafið svo finni kofa.
Pysja í ljósið leitar
lendir í húsasundi.

Skríður í skugga, hræðist;
skyldu ekki svalar öldur
færa henni fisk að óskum
freyða við klett og eiði?
Finnur þá frelsi minna
fangin af höndum ungum;
pysjuna Eyjapeyi
passar í nótt í kassa.

Austur af Vestmannaeyjum
eldar af nýjum degi.
Krakkar í fríðum flokkum
fjöruna prúðir þræða.
Kofa mót himni er hafin
heimkynni rétt svo nemi,
syndir á sjónum lundi
svífur að kvöldi yfir.