Einu sinni var lítið lýðræðisríki sem hét Afþvíbaraborg. Í Afþvíbaraborg giltu lög og reglur eins og í öðrum lýðræðisríkjum. Afar sanngjörn lög og fullkomin. Ein greinin í lögum um rétt manna til atvinnu, kvað t.d. á um að menn mættu byggja ljótar og illalyktandi síldarbræðsluverksmiðjur í almenningsgörðum, ef þá langaði í nýjan fjallajeppa. Í lögum um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna sagði að menn mættu beita maka sína „líkamlegum hvatningaraðgerðum innan hóflegra marka“ ef þeir leggðu ekki nógu mikið til heimilisins. Svona var nú réttarfarið fullkomið í Afþvíbaraborg. Allt skráð í bókina með milligreinum, reglugerðum og öllu.
Þótt flestir íbúar Afþvíbaraborgar, væru allajafna friðelskandi, var þó eitt sem olli stöðugum deilum: Menn voru bara alls ekkert sammála um það hvers konar hvatningaraðgerðir teldust „innan hóflegra marka“. Málmfríður sagði t.d. mjög hóflegt að reka nýbrýnda nögl í annað auga eiginmanns síns, hans Kára þegar vonir hennar um að hann fengi launahækkun brugðust. Hann yrði áreiðanlega ekki blindur af því, allavega ekki nema á öðru auganu, svo það hlyti að teljast „hóflegt“. Þegar allt kom til alls langaði hana í nýjan pels. Magni áleit eðlilegt að beita öllum ráðum, svo framarlega sem hann skildi ekki eftir sig sýnilega áverka. Hann notaði þá aðferð að dýfa höfði Árdísar, konu sinnar, í vatn þegar hann langaði í nýjan jeppa sem hún vildi ekki vinna fyrir. Hann gætti þess alveg að hún drukknaði ekki, þetta var bara hans aðferð til að ná fram meiri framleiðni. Flestir í Afþvíbaraborg höfðu fullan skilning á þessum aðferðum enda voru flestir í góðum tengslum við raunveruleikann.
Langt í burtu frá Afþvíbaraborg bjó hópur af hassreykjandi lopapeysuhippum. Þeir þurftu ekkert að vinna. Þeir fengu bara styrki frá öðrum hassreykjandi lopapeysuhippum sem þurftu heldur ekkert að vinna. Hassreykjandi lopapeysuhipparnir voru ekki í neinu sambandi við raunveruleikann. Þeir voru vanir því að líta á líkamlegar hvatningaraðgerðir sem ofbeldi og skildu ekki nauðsyn þess að knýja fram nógu mikla framleiðni til að Magni gæti eignast nýjan jeppa og Málmfríður fleiri loðfeldi. Svona voru þeir heimskir. Og latir. Auk þess voru sumir þeirra kynvillingar, lengi getur vont versnað.
Þegar þessum atvinnulausa skríl var farið að leiðast aðgerðaleysið, flykktust þeir til Afþvíbaraborgar og mótmæltu hinum sanngjörnu og skynsamlegu lögum um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna. Því nenntu þeir þótt þeir nenntu ekki að vinna. Þeir móðguðu ríkisstjórnina með því að kalla lögin „siðlaust samþykki stjórnvalda á heimilisofbeldi“ og sumir þeirra gengu svo langt að krefjast þess að „hvetjandi aðgerðir til framleiðsluaukningar“, eins og það var orðað í lögunum, yrðu einfaldlega bannaðar.
Þar sem Afþvíbaraborg var lýðræðisríki var hassreykjandi lopapeysuhippum að sjálfsögðu heimilt að mótmæla. Ríkisstjórnin hafði fullan skilning á því og útvegaði þeim m.a.s. mótmælasvæði, langt frá mannabyggðum, setti þar upp ruslagáma undir mótmælaspjöld og veitti þeim styrk til að kaupa gítar. Svona var nú lýðræðið mikilsmetið í Afþvíbaraborg.
Eeen, lopapeysulýðurinn var bæði útlenskur og órakaður og kunni ekkert þakklæti. Þegar þessir skrælingjar voru búnir að sitja í mörg ár uppi á hálendinu og syngja “giv pís a tsjens” fór þá að gruna að það hefði ekki sérlega mikil áhrif. Þeim fannst ekki nóg að hafa rétt til að mótmæla, þeir vildu líka að yrði hlustað á þá. Svona fara nú eiturlyf með ungviðið. Þeir ruddust þessvegna inn í Afþvíbaraborg með hávaða og öðrum hryðjuverkum og kröfðust þess að lögunum yrði breytt.
Það undarlega var að nokkir af góðborgurum Afþvíbaraborgar lýstu sig sammála lopapeysulýðnum. Til voru þeir sem höfðu verulegar áhyggjur af fólki eins og Kára og Árdísi og sögðu að það væri bara tímaspursmál hvenær einhver yrði fyrir óafturkræfum skaða. Sennilega hafa þeir líka verið á kafi í eiturlyfjum og haldnir lopapeysufetissi, en þar sem þeim tókst að halda þessu óeðli sínu leyndu, höfðu orð þeirra áhrif. Fleiri og fleiri tóku undir það viðhorf að þótt Kári væri letihaugur og aumingi, mætti samt ekki stinga úr honum augun. Hann ætti nefnilega börn sem hann þyrfti að sjá fyrir og það gæti hann ekki sem öryrki.
Á endanum voru lögin endurskoðuð. Svona geta nú hryðjuverk sveigt og bugað rétt kjörin stjórnvöld. Í lögum um gagnkvæma framfærsluskyldu var tekið fram að ekki mætti beita maka sinn „heilsuspillandi þvingunaraðgerðum“, nema bera það fyrst undir heilbrigðisráð Afþvíbaraborgar.
Nú gæti maður haldið að þar með væri málið afgreitt og allir sáttir. En það var nú ekki svo. Í heilbrigðisráði Afþvíbaraborgar, áttu nefnilega sæti nokkrar gamlar þurrkuntur sem voru tilbúnar til að níðast á sjálfsögðum rétti fólks til að aga maka sinn til meiri framleiðni. Þurrkunturnar úrskurðuðu þegar í stað að ekki mætti kaffæra fólk í vatni eða reka beitta hluti í líffæri þess. Þá urðu hipparnir glaðir. Og Árdís. Líka Kári og nokkrir aðrir vitleysingar sem voru ekki í sambandi við raunveruleikann.
Stuttu síðar var Árdísi drekkt og augað stungið úr Kára. Þið spyrjið líklega hvernig það gat gerst eftir að lögunum var breytt. Það er nú reyndar ekki eins dularfullt og það hljómar. Málmfríður og Magni höfðu nefnilega bæði skilað inn greinargerð ÁÐUR en lögunum var breytt. Í þeim skýrslum kom fram að þar sem makar þeirra hefðu gjörsamlega brugðist vonum þeirra um fleiri fjallajeppa og loðfeldi, hefðu þau hvort um sig ákveðið að beita augnstungu og kaffæringu, í von um að það hefði hvetjandi áhrif á framleiðni þeirra. Eins og gefur að skilja ná nýsett lög ekki til þess sem þegar hefur verið ákveðið, svo þau voru í fullum rétti.
Enn mótmælti lopapeysuliðið. Í þetta sinn fóru þessir órökuðu atvinnuleysingjar inn á einkalóð Magna og skrúfuðu fyrir vatnslagnir. Þá kom löggan og fjarlægði lopagöndlana sem voru með fullkomlega ólöglegum skrílshætti að reyna að stoppa Magna í því að drekkja Árdísi. Það var að vísu orðið ólöglegt núna en hann Magni hafði tilkynnt þessa ákvörðun með fyrirvara og þ.a.l. var það gott, rétt, siðsamlegt og þó fyrst og fremst löglegt. Auk þess gætu kaffæringar ekki flokkast sem „heilsuspillandi aðgerðir“, sagði hann. Það væru engir sýklar í vatni svo ekki var hann að spilla heilsu hennar og þ.a.l. út í hött að gefa heilbrigðisráði vald til að stoppa hann í þessari nauðsynlegu aðgerð. Það væri ekki einu sinni víst að Árdís myndi drukkna.
Ríkisstjórn Afþvíbaraborgar lýsti yfir skilningi á þessu sjónarmiði. Hún gaf Magna formlegt leyfi til að hefjast handa við að kaffæra konu sína, á meðan væri verið að leiðrétta hugmyndina um hvað teldist „heilsuspillandi“ og hvað ekki. Þegar allt kom til alls langaði Magna í nýjan jeppa og til þess að svo mætti verða þurfti Árdís að skila heimilinu meiri hagnaði. „Framleiðsluhvetjandi aðgerðir“ voru eina leiðin til að auka tengsl hennar við raunveruleikann og ríkisstjórn Afþvíbaraborgar hafði fullan skilning á því.