Mokka

Hjarta mitt,
titrandi blekdropi
á oddi pennans.

Ljóð,
nema hönd mín skjálfi.
Klessa
ef þú lítur í átt til mín.

Nei. Bara klessa.
Jafnvel þótt þú lítir aldrei
í átt til mín
nema einu sinni
til að teygja þig í öskubakka.

Ljóð mitt,
sígarettureykur,
líður þér um varir,
leysist upp.

Þú varst blekklessa,
þú varst reykjamökkur
á Mokka.

Á eftir

Það streymir.
Það flæðir.
-Eitt óp.
Og svo er því lokið
með rennilásshljóði.

Ég ligg hér
svo brothætt,
svo tóm
eins og skel í fjöru
og hlusta
á fótmál þitt hljóðna.

Og óveruleikinn
með deginum inn í mig smýgur
þótt ilmur þinn
loði ennþá við sængina mína,
og samt eru vorhljóð
í rigningu fuglarnir syngja
og veröldin lyktar af ösp.
Það er vor.

-Það er ljósgrænt.

Sett í skúffuna í apríl 1983

Beðið eftir Landleiðum

Ég var 16 ára þegar ég skrifaði þetta. Bjó í Hafnarfirði en allir vinir vínir í Reykjavík. Gekk í Flensborgarskóla, var með námsleiða og hélt skólann út eingöngu fyrir tímana hjá Vigdísi Gríms. Landleiðir voru líftaugin, öll mín félagslegu tengsl voru háð Landleiðavagninum sem var oftast á eftir áætlun og 85% dýrari en strætó í Reykjavík.

Snjókorn

Meðal snjókornanna stendur snáðinn
eins og mynd í bók.
Hann teygir hendurnar upp í loftið
og reynir að grípa þau.

Og þegar ævintýrið endar
og snáðinn spyr
„Ka´r etta?“
Þá hef ég ekki brjóst í mér
til að segja honum
að fallegu snjókornin hans
séu aðeins
vatnsmólikúl sem náð hafa storknunarmarki.