Beðið eftir Landleiðum

Ég var 16 ára þegar ég skrifaði þetta. Bjó í Hafnarfirði en allir vinir vínir í Reykjavík. Gekk í Flensborgarskóla, var með námsleiða og hélt skólann út eingöngu fyrir tímana hjá Vigdísi Gríms. Landleiðir voru líftaugin, öll mín félagslegu tengsl voru háð Landleiðavagninum sem var oftast á eftir áætlun og 85% dýrari en strætó í Reykjavík.
Allt of stór hluti þeirra peninga sem mér tókst að afla að sumrinu fór í Landleiðir. Maður átti alltaf Landleiðakort en sjaldan pening. Og aldrei alvöruskó, hvað þá kærasta. Það var samt ákveðinn sjarmi yfir þessari eymd, enda var ég dálítið skotin í hugmyndinni um fátæka skáldið sem dó úr hungri og berklum í fúnu risherbergi í Kaupannahöfn. Að vísu var ég ekkert svöng og hafði öngva berkla þótt mér þætti fátækt mín stundum átakanleg. Mér leiddist voðalega að eiga ekki nógu bágt til að semja alvöru þunglyndisljóð þegar mig langaði mest að sökkva mér að ljúfsára sjálfsvorkun. Stundum gerði ég tilraunir til að yrkja þunglyndisljóð en þau voru flest afskaplega ósannfærandi. Held að af öllum þeim leirburði sem vall upp úr mér á unglingsárunum sé þetta það eina sem í rauninni kemur frá hjartanu.

 

Mér leiðist í skólanum
leiðist að vera ekki skotin.
Leiðist þó allra mest
þessi tómleiki í vösunum.
Leiðist með frostbitnar tær
í götóttum kínaskóm.
Leiðist að bíða
svona lengi eftir Landleiðum.