Biðlað til Eddu

Mín eina hjartans löngun um það snýst
að yrkja til að anda til að skrifa
og ekki hættir tímans úr að tifa
og tækifærum fjölgar allra síst.

Ef ekkert svar af söngli mínu hlýst
sem segir mér að ljóð mín megi lifa
ég sífellt mun á sama tóni klifa
uns sál þín greinir sandlóunnar tíst.

Í fjarskanum ég greini fljótsins drunur
er fjötra íssins brýtur vorsól hlý
þótt ljóð mitt beri lítinn vott um snilli

en hvort það verður meira en mynd og grunur
að mestu leyti veltur nú á því
sem lestu sjálfur línanna á milli.

Morgunbæn

Svo morgnar um síðir
svo á jörðu sem á himni
því það er líparít
og það er stuðlaberg
og það er rauðamöl
og það ert þú.
Sett í skúffuna í mars 2003

 

Fjallið er kulnað

Þar sem áður brunnu eldar,
nógu heitir til að bræða grjót.
Þar sem glóandi hraunkvikan
varnaði nokkru lífi aðkomu
en vakti þó athygli
um stund,

þar er nú hraunskel nakin,
hrjúf og köld

og fjallið er kulnað.

Engin mosató er þér búin
í faðmi mér
en við rætur mínar
vaxa snjóblóm.

Frestun

Ég veit það og skil fyrr en lúgan skellur
að skuldin í næstu viku fellur
en skelfingin bíður næsta dags.
Oft er frestur á illu bestur
því opna ég póstinn ekki strax.

En kvíðinn skín út um gulan glugga
grandar hann svefnsins friðarskugga
og geighús mitt lýsir allt um kring.
Í hug mér kúrir, sem hamstur í búri
og hleypur í vaxtavítahring.